Þorgerður Anna Gunnarsdóttir
„Það hefur komið snjór áður en ekkert í líkingu við þetta. Þegar við vorum að byggja þessi hús, manni datt nú ekki í hug að maður þyrfti að moka af þessum þökum. Ég held það séu níu metrar upp í stafninn á hæsta húsinu og þau eru snarbrött líka.“
Þetta segir Valgeir Þorvaldsson, forstöðumaður Vesturfarasetursins á Hofsósi. Hann hafði nýlokið við að aðstoða um 30 hross að komast á gjöf í fannferginu þegar mbl.is sló á þráðinn.
„Þetta er kannski ástæðan fyrir því að fólkið fór til vesturheims,“ segir Valgeir, en eins og sjá má af myndum sem dóttir Valgeirs tók er Kvosin, sem hýsir Vesturfarasetrið, nánast á kafi í snjó eftir óveðrið í síðustu viku.
Unnið var að því í gær að moka af þaki húsanna, auk þess sem mokað var frá glugga á 2. hæð hússins svo hægt var að skríða þar inn. „Skrifstofuvinnan hófst í gærkvöldi í gegnum gluggann á efri hæðinni.“
Valgeir segir að mikið hafi snjóað á Hofsósi árið 2013. Það hafi þó ekkert verið í líkingu við þetta. „Það er ofboðslegur snjór þarna fyrir ofan húsið sem við köllum gamla kaupfélagið, svakalegar hengjur. Ef þær fara af stað þá er ólíklegt að húsið standi það af sér,“ segir Valgeir og að það eina sem hægt sé að gera í stöðunni sé að tryggja að enginn sé í húsinu.
Rafmagnslaust var á svæðinu í sólarhring og segir Valgeir það ofboðslega vinnu að koma öllu aftur í gang, ekki síst hjá bændum.