Óska eftir svörum og gagnrýna RÚV

Hluti þingflokks Miðflokksins.
Hluti þingflokks Miðflokksins. mbl.is/​Hari

Þingmenn Miðflokksins hafa sent Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf þar sem farið er fram á að skýrsla verði gerð um aðdraganda og afleiðingar óveðursins sem gekk yfir landið í síðustu viku.

Allir þingmenn Miðflokksins nema Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eru merktir fyrir bréfinu. Þingmennirnir óska eftir svörum um hver viðbúnaður var áður en óveðrið skall á og viðbrögð við því. Einnig komi fram hvaða úrbætur stjórnvöld hyggjast gera eftir atburðina.

Í greinargerð vegna skýrslubeiðninnar er fjallað um óveðrið, auk þess sem fréttaflutningur Ríkisútvarpsins af því er gagnrýndur:

Fréttaflutningi Ríkisútvarpsins af óveðrinu var háttað þannig að þeir íbúar sem voru einangraðir, án samgangna, rafmagns og netsambands fengu ónógar fréttir af ástandinu, í gegnum þau fáu útvarpstæki sem unnt var að notast við. Mat fréttastofu Ríkisútvarpsins á þessari alvarlegu stöðu endurspeglaðist í því að fólki á svæðum án net- og símasambands var ráðlagt að fara á netið til að leita sér upplýsinga,“ kemur fram í greinargerðinni.

Fram kemur að Landsbjörg og Rauði krossinn hafi sýnt mikið hyggjuvit og það veki spurningar hvers vegna opinberir aðilar hafi ekki haft sama fyrirvara á. Miðflokkurinn telur að Rarik og Landsnet hafi ekki gert sambærilegar ráðstafanir, sem verði að teljast sérstakt vegna þess hve ítarlega hafði verið varað við veðrinu.

„Ekki þarf að fjölyrða um áhrif á hjúkrunar- og heilbrigðisstofnanir sem og lögreglu sem dæmi eru um að höfðu takmarkað fjarskiptasamband. Þá má nefna áhrif á samgöngur o.s.frv. Við aðstæður sem þessar má velta vöngum yfir áformum stjórnvald um að útrýma tækjum er nota jarðefnaeldsneyti,“ segir í greinargerðinni.

Fimmtán spurningar fylgja bréfinu sem sjá má hér að neðan:

· Hvers vegna voru raforkuflytjendur og seljendur, aðallega RARIK og Landsnet ekki betur undir óverðið [sic] búin?

· Var vitað um veikleika í raforkukerfinu á þeim svæðum sem verst urðu úti?

· Hvað skýrir að ekki var tiltækt varaafl t.d. Sauðárkróki, Hvammstanga, Dalvík, Ólafsfirði og víðar.

· Hvar voru til reiðu varahlutir t.d. línur, staurar, varaaflsstöðvar o.þ.h. á vegum RARIK og Landsnets?

· Hve langan tók að koma á rafmagni á þeim stöðum þar sem það fór af?

· Hve margir landsmenn voru án rafmagns?

· Til hvaða ráðstafana verður gripið til að koma í veg fyrir að svona ástand geti endurtekið sig?

· Hverjar voru ástæður hverrar bilunar fyrir sig og hvaða úrbætur þarf að gera til að þær endurtaki sig ekki?

· Hvað skýrir að fjarskipti duttu út og var ástæðan alls staðar sú sama og hvað verður gert til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig?

· Tetra kerfið virkaði ekki sem skyldi, hvers vegna og til hvaða aðgerða þarf að grípa?

· Eru eldri fjarskiptakerfi (fastlínukerfið) enn til staðar og getur [sic] nýst í neyð?

· Ríkisútvarpið hefur ákveðið almannavarnarhlutverk, hvernig var samhæfing við stofnunina og fengu landsmenn skilaboð um ástandið með fullnægjandi hætti?

· Hvaða leiðir eru færar til koma skilaboðum til landsmanna við aðstæður sem þarna sköpuðust?

· Til hvaða aðgerða verður gripið til að tryggja að upplýsingar berist íbúum svæða sem kunna að verða fyrir hamförum sem þessum?

· Upplýsa þarf nákvæmlega um hvar varaafl er til staðar, hvar það þarf að vera til staðar og hvers vegna það var ekki til reiðu er á reyndi.

· Hver voru áhrifin á aðra innviði, vatns- og hitaveitur, samgöngur o.fl.?

· Hvar á þeim svæðum sem rafmagnsleysi varð hefur Landsnet orðið fyrir því að viðhalds- og nýframkvæmdir, hvað línulagnir/byggðalínu varða, hafa tafist vegna leyfismála.

· Lagfæring á hvaða hluta leyfisveitingaferilsins er líklegust til að sporna við slíkum töfum.

· Hvernig var viðbúnaður og viðbragð þeirra sem bera ábyrgð á að samgöngur haldist greiðar?

· Viðbrögðin virðast ekki hafa verið nægjanlega markviss hjá opinberum aðilum, hvaða útbætur [sic] þarf að gera?

· Hve mikið er samfélagslegt tjón af völdum óveðursins?

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert