Tekur undir með Sigríði Á. Andersen

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Hari

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, tekur undir með Sigríði Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um að nálgun hæfisnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um embætti dómara hafi verið önnur í nýrri umsögn nefndarinnar en í Lands­rétt­ar­mál­inu. 

Aðsend grein eftir Sigríði birtist í Morgunblaðinu í dag en þar sagði Sigríður að hæfisnefndin hafi með nýrri um­sögn sinni al­farið hafnað þeim vinnu­brögðum er hún viðhafði sjálf í Lands­rétt­ar­mál­inu. 

Áslaug tekur fram að hún meti nú nýju umsögnina, sem snýr að hæfi umsækjenda um stöðu hæstaréttardómara, og þyki því ekki rétt að tjá sig um það einstaka mál.

Áslaug telur samt sem áður að vænleg séu vinnubrögð sem verða til þess að dómsmálaráðherra fái að velja um fleiri aðila en embættin eru sem sóst er eftir. Slík vinnubrögð voru viðhöfð í nýju umsögn nefndarinnar en ekki í Landsréttarmálinu.

„Nálgunin er önnur en þegar nefndin skilaði af sér í Landsrétti og umsögnin er líka öðruvísi uppbyggð. Ég hef auðvitað tjáð almennt þá skoðun mína að það væri rétt að nefndir sem þessar skili fleiri aðilum en embættin eru sem verið er að skipa í. Það hefur verið gert núna og það hefur verið gert áður en mun sjaldnar heldur en þegar tillagan hefur akkúrat verið um þann fjölda sem verið að skipa í,“ segir Áslaug og bætir því við að í nágrannalöndunum sé framkvæmdin þannig að ráðherra fái fleiri umsækjendur til að velja úr en embættin segja til um. 

Mikið fjaðrafok varð vegna Landsréttarmálsins á sínum tíma.
Mikið fjaðrafok varð vegna Landsréttarmálsins á sínum tíma. mbl.is/Hanna

Hæfi ávallt matskennt

„Ég held að svona niðurstöður séu betri því ábyrgðin liggur hjá ráðherra og þá þarf ábyrgðin líka að vera slík. Það er alltaf matskennd ákvörðun að meta hæfi sem þetta. Þarna er aðeins öðruvísi nálgun sem ég er ánægð með.“

Í Landsréttarmálinu fór hæfisnefnd eftir svokölluðum skorblöðum en í nýju umsögninni er einungis stuðst við slík blöð. Spurð hvort aðferðafræði skorblaðanna sé úr sögunni segir Áslaug:

„Ég held að það sé almennt erfitt að styðjast við slíkt eitt og sér. Sú leið gefur ekki alltaf rétta mynd af hæfni hvers og eins einstaklings.“

Áslaug studdi niðurstöðu Sigríðar í Landsréttarmálinu. Þá vísaði Áslaug meðal annars til kynjasjónarmiða. Spurð hvort hún muni líta til þeirra við skipun dómara segir Áslaug: 

„Ég hef alltaf talað fyrir því og mun áfram tala fyrir því að það sé á meðal þeirra þátta sem skuli líta til þegar skipað er í embætti eins og lög segja líka til um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert