Dalvíkurlína í rekstur á miðvikudag

Varðskipið Þór sér Dalvík fyrir rafmagni.
Varðskipið Þór sér Dalvík fyrir rafmagni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinna gengur vel við lagfæringar á Dalvíkurlínu og ef vinna gengur áfram vel á morgun eru allar líkur á því að áætlanir standist og að línan verði komin í rekstur á miðvikudag. Allar stæður eru komnar upp og byrjað er að hengja upp leiðara.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti.

Þar segir jafnframt að í lok vinnudags í gærkvöldi hafi öllum viðbragðs- og viðgerðaraðilum, sem unnið hafa sleitulaust við hjálpar og viðgerðarstörf, boðið í menningarhúsið á Dalvík til að þiggja veitingar í boði íbúa.

Kópaskerslína í lag um helgina

Þá hófst viðgerð á línuhluta Kópaskerslínu næst Kópaskeri af fullum krafti í dag. Línan er í rekstri frá Laxá. Tuttugu manna hópur sér um að hreinsa leiðara og undirbúa staurauppsetningu, en reising á nýjum staurum hefst í dag. Þá bætast nokkrir reynsluboltar, að því er segir í tilkynningu frá Landsneti, í viðgerðarteymið í dag, en þeir koma beint úr viðgerð á Dalvíkurlínunni. Áætlað er að vinnu við Kópaskerslínu verði lokið um komandi helgi.

Áætlað er að viðgerð á Húsavíkurlínu ljúki í kvöld en beðið verður með viðgerð á Laxárlínu meðan unnið er að lagfæringum á öðrum línum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert