Grundvallaratriði að sama gildi fyrir alla

Í Víðidal er 1,5 kílómetra kafli þar sem enn er …
Í Víðidal er 1,5 kílómetra kafli þar sem enn er loftlína. Allt í kring hefur strengurinn verið lagður í jörð. mbl.is/Brynjar Gauti

„Þetta er eitt af því sem við höfum bent á að vanti í regluverkið. Það vantar einhverja leið til að tryggja að innviðir geti komist á með eðlilegum hætti í landinu,“ segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, í samtali við mbl.is.

Fram kom í Morgunblaðinu í dag að hægt hefði verið að tryggja sjúkrahúsinu á Hvammstanga rafmagn í óveðrinu ef ekki hefði verið fyrir 1,5 kílómetra kafla í Víðidal þar sem enn er loftlína. Rætt var við umræddan landeiganda sem var ósáttur við samninginn sem honum bauðst frá Rarik.

„Við höfum gert staðlaða samninga við alla landeigendur þar sem við förum með jarðstreng í gegn og sá samningur byggir á því að við höfum þinglýstan rétt til að vera í landi viðkomandi,“ útskýrir Tryggvi. Ef landeigendur samþykki ekki að raflínur séu lagðar í jörð, sem þeir hafi fullan rétt á, sé lítið hægt að gera.

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik.
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik.

Landeigandinn sem rætt var við í Morgunblaðinu sagðist ekkert hafa á móti jarðstrengjum en leist ekki á samninginn sem Rarik bauð vegna þess að á honum voru engin tímamörk og lagði fram endurbætta útgáfu samningsins þar sem þinglýst kvöð á landið var bundin við ákveðinn árafjölda. Rarik ákvað að þinglýsa ekki þeim samningi og úr varð að eftir stendur 1,5 kílómetra löng loftlína í Víðidal.

„Við getum ekki mismunað og verið með einn samning fyrir þennan og annan fyrir hinn. Það er mat okkar og okkar lögmanna að það sé grundvallaratriði að það gildi það sama fyrir alla. Við verðum að hafa þennan samning og getum ekki búið við það að seinna komi annar eigandi og krefjist þess að við fjarlægjum strenginn. Þess vegna höfum við viljað þinglýsa kvöð um að fá að vera með strenginn, en að sjálfsögðu í samkomulagi við landeiganda um hvar og hvernig hann liggur,“ segir Tryggvi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert