Orkuveituhúsið verður „rétt af“

Teinréttir útveggir og færri gluggar á gaflinum.. Til hægri má …
Teinréttir útveggir og færri gluggar á gaflinum.. Til hægri má sjá hvernig endurbyggt Vesturhús Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls mun líta út. mbl.is/Samsett

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur samþykkt að bjóða út umfangsmiklar framkvæmdir við endurbyggingu hluta skemmds skrifstofuhúsnæðis fyrirtækisins við Bæjarháls í Reykjavík. Ný hönnun gerir ráð fyrir að húsið taki nokkrum útlitsbreytingum. Til stendur að rétta útveggi hússins af, en þrír af fjórum útveggjum hins skemmda húsnæðis slúta nú fram fyrir sig.

OR segir að nú sé unnið að lokafrágangi útboðsgagna, en gert er ráð fyrir að útboð verði auglýst í febrúar 2020. Framkvæmdir gætu þá hafist á næsta ári og verið lokið 2022.

Fram kemur í tilkynningu frá OR að ný hönnun geri ráð fyrir að húsið taki nokkrum útlitsbreytingum, en til stendur að rétta útveggi hússins af, en þrír af fjórum útveggjum hins skemmda húsnæðis slúta nú fram fyrir sig.

Það þýðir að gólfflötur neðri hæða mun stækka en efri hæða minnka. Heildarflatarmál verður svipað og fyrir breytingar.

Sjá má hvernig áætlað er að húsið líti út í myndskeiðinu hér að neðan.


Miklar rakaskemmdir í hluta hins svokallaða Vesturhúss komu að fullu í ljós síðsumars 2017 og var húsnæðið þá strax rýmt og ráðist í greiningu á valkostum til úrbóta.

Til skoðunar hefur komið að rífa húsnæðið, en niðurstaðan varð á endanum að endurbyggja útveggi Vesturhússins en nota áfram það sem heilt er, burðarvirkið, gólf og ýmis kerfi hússins á borð við lyftur og loftræsibúnað.

Ráðist var í útboð á verkfræðihönnun endurbyggingarinnar haustið 2018 og vinnur Verkís hana, en Hornsteinar eru arkitektar hússins.

Teikning/Aðsend

„Ákvörðun stjórnar um útboð framkvæmda er tekin á grundvelli kostnaðaráætlunar sem birt verður í útboðsferlinu,“ segir í tilkynningu OR, en dómkvaddir matsmenn eru að störfum við að grafast fyrir um orsakir skemmdanna á húsinu.

Telja þetta bestu niðurstöðuna

„Við lögðum á það áherslu um leið og skemmdirnar á Vesturhúsi komu í ljós að ana ekki að neinu. Við skoðuðum marga kosti í stöðunni, greindum þá og mátum og teljum okkur nú vera komin að bestu niðurstöðunni. Það gæti líka orðið hagkvæmara að ráðast í framkvæmdir af þessu tagi nú en hefðum við strax rokið af stað. Bæði hefur dregið úr spennu á byggingamarkaði og vextir eru lægri,“ er haft eftir Bjarna Bjarnasyni forstjóra OR í fréttatilkynningu.

Hann segir að það eigi eftir að koma í ljós hvaða áhrif framkvæmdirnar muni hafa á starfsemi OR í öðru húsnæði fyrirtækisins að Bæjarhálsi og vill Bjarni í því sambandi nefna „seiglu“ starfsfólks Orkuveitunnar, sem hann segir að hafi sýnt „þolgæði og sveigjanleika við þetta önuga ástand á húsnæðinu.“

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert