Rannsóknin á Eimskip og Samskip „án fordæma“

Rannsóknin nær til ætlaðra samkeppnisbrota Eimskips og Samskips.
Rannsóknin nær til ætlaðra samkeppnisbrota Eimskips og Samskips. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkeppniseftirlitið segir umfang rannsóknar eftirlitsins á ætluðu ólögmætu samráði Eimskips og Samskips vera „án fordæma,“ meðal annars þegar horft er til undirliggjandi gagnamagns. Þetta kemur fram í tilkynningu frá eftirlitinu, en í dag hafnaði héraðsdómur síðustu kröfu Eimskips í tengslum við dómsmál þar sem farið var fram á að rannsókn Samkeppniseftirlitsins væri úrskurðuð ólögmæt og henni skyldi hætt.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins beinist að því hvort Eimskip og Samskip (Samskip Holding BV, Samskip hf., Landflutningar ehf. og Jónar Transport hf.) hafi haft með sér ólögmætt samráð á mörkuðum fyrir sjóflutninga, flutningsmiðlun og landflutninga.

Eimskip.
Eimskip. Ljósmynd/Eimskip

Málið á rætur að rekja til húsleita sem gerðar voru hjá fyrirtækjunum í desember 2013 og júní 2014. Samkeppniseftirlitið segir að möguleg brot fyrirtækjanna hafi verið til samfelldrar rannsóknar og sé hún nú vel á veg komin. Hafi fyrirtækjunum verið gefin andmælaréttur í júní 2018 og svo aftur núna í síðustu viku. Fyrirtækin hafi hins vegar ekki nýtt sér andmælaréttinn í fyrra skiptið.

Eimskip höfðaði mál gegn eftirlitinu vegna rannsóknarinnar og fór fram á að henni yrði hætt og metin ólögmæt. 10. október í ár vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur kröfunni frá og eftir áfrýjun staðfesti Landsréttur úrskurðinn 25. október.

mbl.is/Sigurður Bogi

Eftir stóð þá krafa Eimskips um að aflétt yrði haldi sem hafði verið lagt á gögn fyrirtækisins og að afritum slíkra gagna yrði eytt. Í dag hafnaði héraðsdómur svo þeirri kröfu.

Kemur fram í tilkynningunni að málið sæti forgangi hjá eftirlitinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert