Þurfa um 18.000 undirskriftir

Ekki eru allir á eitt sáttir um uppbyggingaráform Reykjavíkurborgar í …
Ekki eru allir á eitt sáttir um uppbyggingaráform Reykjavíkurborgar í Elliðaárdal. mbl.is/Hari

„Við gerum ráð fyrir að þurfa að safna 18.000 undirskriftum, en þá ber borginni skylda til að setja í gang íbúakosningu um deiliskipulagið.“ Þetta segir Halldór Páll Gíslason, formaður Hollvinasamtaka Elliðaárdals, sem klukkan 14.00 í dag munu skila inn formlegri beiðni um undirskriftasöfnun, þar sem farið verður fram á að uppbyggingaráform á svæði norðan Stekkjarbakka fari í íbúakosningu.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur málið verið nokkuð umdeilt, en Halldór segir að það sem Hollvinasamtökin séu óánægðust með sé hvernig málið hafi ekki verið kynnt nægilega í aðdraganda þess, og ráðamenn borgarinnar hafi fært fram villandi upplýsingar. „Allt við hvernig þetta mál hefur farið í gegnum kerfið er mjög skrítið. Þetta er kynnt sem 1.500 fermetra bygging, og fer í gegnum kerfið á þeim forsendum, en svo þegar búið er að samþykkja það þá hugsa menn með sér: „Það væri nú gott að stækka hana aðeins“, og þá er byggingin allt í einu orðin 4.500 fermetrar,“ segir Halldór. Vísar hann þar til gróðurhvelfingar þeirrar sem áformað er að muni rísa í Elliðaárdalnum. 

„Mjög bjartsýn“

Sem fyrr segir þurfa Hollvinasamstökin að safna um 18.000 undirskriftum, og hafa til þess fjórar vikur, en samkvæmt 2. mgr. 108. gr. sveitarstjórnalaga skal sveitarstjórn verða við ósk um almenna atkvæðagreiðslu ef minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska þess. Aðspurður segist Halldór ekki hafa ýkja miklar áhyggjur af því að umræddur undirskriftafjöldi safnist. „Við erum mjög bjartsýn um að ná undirskriftunum enda er ljóst að mörgum þykir vænt um og bera augar til þessa fallega græna svæðis innan borgarmarkanna.“ Áætlað sé að ráðast í söfnunina í lok janúar.

Þá bætir hann við að synd sé að einungis íbúar Reykjavíkurborgar séu bærir til að skrifa undir, því að hann hafi fundið fyrir miklum stuðningi fólks úr öðrum sveitarfélögum, sem dæmi úr Kópavogi, sem nýta sér Elliðaárdalinn og myndu vilja sýna málefninu stuðning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert