500 metra breitt snjóflóð

Snjóflóðið sem féll á veginn í Ljósavatnsskarði í gærkvöldi er um 500 metra breitt og alls óvíst hvenær verður hægt að opna veginn að nýju. Öxnadalsheiðin er einnig ófær og þar eru þó nokkuð margir bílar fastir sem og við Ljósavatnsskarðið. Lögreglan á Akureyri biður fólk um að reyna ekki að fara þessa vegi fyrr en þeir eru orðnir færir. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvenær það verður. Búið er að koma fólki til bjargar sem festi bíla sína á þessum leiðum þannig að enginn, svo vitað sé, þurfti að eyða nóttinni í bíl sínum uppi á Öxnadalsheiði eða í Ljósavatnsskarði.

Uppfært klukkan 8:47

Víðast hvar vetrarfærð og verið er að hreinsa helstu leiðir en vegir eru víða lokaðir á norðanverðu landinu, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Á Norðurlandi er búið að opna veginn um Vatnsskarð en þar er hálka. Búast má við þæfingi og skafrenningi niður Langadalinn. Í Skagafirði er þæfingur og víðast hvar snjór á vegum eða hálka. Öxnadalsheiði er lokuð vegna ófærðar en mokstur er hafinn. Von er á að vegurinn verði opnaður fljótlega. Leiðin um Almenninga er lokuð vegna veðurs. Vegurinn um Ljósavatnsskarð er enn lokaður vegna snjóflóðs en skoða á með mokstur í birtingu. Víkurskarði hefur verið lokað vegna veðurs. Möðrudalsöræfi eru enn lokuð en von er á upplýsingum þaðan í birtingu. Sama á við um Mývatnsöræfi og Vopnafjarðarheiði.

Á Austurlandi er víða hálka, snjóþekja eða þæfingsfærð á vegum. Ófært er um Vatnsskarð eystra. Búið er að opna veginn um Fjarðarheiði en þar er hálka og skafrenningur. Á Suðurnesjum er flughálka á Krísuvíkurvegi. Eins er flughált í Kjósarskarði. Á Vestfjörðum er víðast hvar snjór eða hálka á vegum en þæfingur er á Gemlufallsheiði og þungfært um Steingrímsfjarðarheiði. Klettsháls er enn ófær.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert