Ísing myndast á raflínum á ný

Ísing er aftur tekin að myndast á raflínum á Norðurlandi. …
Ísing er aftur tekin að myndast á raflínum á Norðurlandi. Þessi mynd var tekin eftir að mesta óveðrið gekk yfir í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rafmagnslaust er frá Núpi til Lundar á Norðausturlandi þar sem veður er slæmt. Staur brotnaði í Öxarfirði og vír slitnaði vegna ísingar. Viðgerð stendur yfir og samkvæmt upplýsingum frá Stein­grími Jóns­syni, deild­ar­stjóra netrekst­urs hjá RARIK á Norður­landi, verður rafmagn komið á fyrir miðnætti. 

Óvissustig almannavarna er enn í gildi á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra vegna eftirmála óveðursins í síðustu viku. Staðan á flutn­ings­kerfi raf­magns er enn víða viðkvæm nú tíu dög­um eft­ir að ofsa­veðrið gekk yfir og veður tók aftur að versna fyrir norðan í dag og útlit er fyrir slæmt veður fyrir austan á morgun.

Steingrímur segir að enn sem komið er hafi flutningskerfið sloppið ágætlega í veðrinu sem nú gengur yfir. Ísing sé þó farin að myndast aftur á raflínum og staðan er áfram viðkvæm. 

Hreinsa seltu af Hrútatungu í nótt

Enn er mikil hætta á truflunum í tengivirkinu í Hrútatungu vegna seltu og því hefur verið ákveðið að hreinsa tengivirkið í nótt. Raforkunotendur í Dalbyggð og Skógarströnd mega búast við rafmagnstruflunum frá miðnætti til klukkan 6 í fyrramálið vegna þessa. 

Reynt verður að halda rafmagni inni þar sem hægt er og lögð verður áhersla á svæði sem ekki eru með hitaveitu. Að öllum líkindum verður rafmagn á Hvammstanga og Laugarbakka, en það gætu orðið rafmagnstruflanir þar. Sama á við um notendur sem tengdir eru við Glerárskóga á Vesturlandi. Keyrt verður varaafl, en það geta orðið truflanir á afhendingu.

Raforkunotendur í Dalbyggð og Skógarströnd, búast má við rafmagnstruflunum frá …
Raforkunotendur í Dalbyggð og Skógarströnd, búast má við rafmagnstruflunum frá kl 00:00 til kl 06:00 í nótt vegna vinnu í tengivirki Landsnets í Hrútatungu. Ljósmynd/RARIK
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert