Lokun Farvel hefur áhrif á yfir 100 Íslendinga

Ferðaskrifstofuleyfi ferðaskrifstofunnar Farvel hefur verið fellt niður. Á Facebook-síðu Farvel …
Ferðaskrifstofuleyfi ferðaskrifstofunnar Farvel hefur verið fellt niður. Á Facebook-síðu Farvel má finna auglýsingar fyrir ferðir um páskana og næsta haust. Skjáskot/Facebook

Ferðaplön á annað hundrað manns í kringum jólahátíðina raskast þar sem ferðaskrifstofuleyfi ferðaskrifstofunnar Farvel hefur verið fellt úr gildi. 

Fram kemur á vef Ferðamálastofu að leyfið hafi verið afnumið þar sem fyrirtækið uppfyllti ekki lengur skilyrði laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun um skil gagna og hafði ekki sinnt ákvörðun Ferðamálastofu um hækkun tryggingarfjárhæðar. 

„Farvel ehf. hefur nú hætt starfsemi,“ segir á vef Ferðamálastofu. Farvel bauð upp á lúxusferðir til margra framandi staða, svo sem Balí, Mexíkó, Indlands og Kúbu. 

Stöðvun starfseminnar mun hafa áhrif á ferðaplön á milli 100 og 200 manns. Þar sem Farvel ehf. hefur ekki skilað inn hækkaðri tryggingu, í samræmi við vaxandi umsvif fyrirtækisins, liggur fyrir að tryggingafé Farvel dugar ekki til að endurgreiða áætlaðar kröfur þeirra sem hafa greitt fyrir eða inn á pakkaferðir á vegum fyrirtækisins, að því er fram kemur á vef Ferðamálastofu, sem hvetur fólk til að kanna samhliða rétt sinn hjá tryggingafélögum og kortafyrirtækjum.

Heimasíða Farvel er óvirk og í tölvupósti sem Ferðamálastofa sendi á þá sem eru erlendis á vegum Farvel fyrir skömmu kemur fram að Farvel hefur ekki greitt flugfélögum fyrir heimferð viðskiptavinanna. 

„Því miður reynist Ferðamálastofu ekki unnt að koma fólki heim og verða farþegarnir því sjálfir að sjá um að kaupa sér heimflug,“ segir í póstinum, en ferðalöngum er bent á að fyrir þeim kostnaði geti þeir gert kröfu til Ferðamálastofu í tryggingarfé Farvel ehf. þegar heim er komið.

Facebook-síða Farvel er enn þá opin og þar er til að mynda verið að auglýsa lúxusferð til Balí næsta haust. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert