Ritstjóri ósáttur við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði

Hafnarfjarðarbær vill helst sjá um að segja fréttirnar af sér …
Hafnarfjarðarbær vill helst sjá um að segja fréttirnar af sér sjálfur, segir Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarfrétta. mbl.is/Hari

Guðni Gíslason, ritstjóri og útgefandi Fjarðarfrétta í Hafnarfirði, segir að hann hafi tekið ákvörðun um að hætta að prenta og dreifa vikublaðinu þegar hann frétti af útgáfu sérstaks jólablaðs á vegum sveitarfélagsins. Það var það sem „fyllti mælinn,“ segir Guðni í samtali við mbl.is, en ákvörðun um að hætta útgáfu blaðsins kynnti hann í leiðara síðasta tölublaðs Fjarðarfrétta sem kom út í gær.

Guðni fer ekkert í grafgötur með það í síðasta leiðaranum og samtali við blaðamann að hann er ósáttur við bæjaryfirvöld, en hann hefur starfað við miðlun frétta úr bæjarlífinu frá því um aldamót, áður sem ritstjóri Fjarðarpóstsins og frá 2016 með útgáfu Fjarðarfrétta.

Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarfrétta.
Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarfrétta.

Hann segist ávallt hafa tekið sér það hlutverk að veita bæjarstjórninni aðhald, óháð því hvaða flokkar hafi verið við völd, og segir það sína reynslu að bæjarfulltrúar þoli gagnrýni merkilega illa og auglýsingar séu síður keyptar af þeim sem séu stundum gagnrýnir á þeirra störf.

„Þetta er nú bara eins og er með blaðamennskuna, hún er að fara til fjandans. Nei, ég segi það nú kannski ekki, en þeir sem borga brúsann eru alltaf að hafa meiri og meiri áhrif. Við megum ekki sem blaðamenn láta það hafa áhrif á okkur þegar við skrifum, en allir hinir geta sagt: „Ef þú skrifar þetta þá kaupi ég ekki auglýsingar hjá þér.“ Það er tilfinningin sem ég hef hjá Hafnarfjarðarbæ, að þeir sýni ekki áhuga því ég er oft gagnrýninn á pólitíkina. Þetta hefur ekkert með flokka að gera heldur snýst þetta um að sitjandi meirihluti fái aðhald,“ segir Guðni.

Jólablað bæjarins gerði útslagið

Steininn tók úr nú í aðdraganda jóla, segir Guðni, þegar Hafnarfjarðarbær ákvað að gefa út sérstakt jólablað, Jólabærinn Hafnarfjörður, og verja til verksins þremur og hálfri milljón króna.

„Þetta er voðalega svona sætt skrautblað um jólaundirbúninginn, fallegar myndir úr Hafnarfirði, jólabænum og svona. En það sem er sérstakt við þetta er að það vissi enginn að það væri verið að fara að gefa þetta út, nema bara þessi fréttastofa,“ segir Guðni og vísar til upplýsingamiðlunar á vef sveitarfélagsins, sem gefur meira að segja út reglulega hlaðvarpsþætti, en fjórtán slíkir hafa komið út frá því í sumarlok.

„Innkaupastjóri bæjarins hafði ekki hugmynd um þetta blað og Markaðsstofa Hafnarfjarðar hafði ekki hugmynd um þetta blað. Þetta kostaði Hafnarfjarðarbæ þrjár og hálfa milljón, sem er meira en Hafnarfjarðarbær keypti af mér í auglýsingum á síðasta ári. Það er þetta sem er að gerast,“ segir Guðni og bætir við að útgefandi Hafnfirðings, samkeppnisaðilans á fríblaðamarkaði í Hafnarfirði, hafi unnið að vinnslu blaðsins fyrir sveitarfélagið.

„Ég ætla ekkert að fara að gagnrýna það blað sem slíkt, það hefur bara allt aðra stefnu,“ segir Guðni um Hafnfirðing, sem þar til í haust hét Fjarðarpósturinn og er ritstýrt af Olgu Björt Þórðardóttur. „Hún er svona meira í Viku-stíl, það er verið að fjalla um einstaklinga, stór viðtöl og það er ekkert verið að styggja einn eða neinn, passað að vera að skrifa ekkert um skipulagsmál og það sem er í umræðu í bænum. Og alls ekki gagnrýna bæjarstjórnina,“ segir Guðni.

Hafnarfjarðarbær greiðir miðlunum svipað mikið

Hafnarfjarðarbær vísar því á bug að efnistök bæjarblaðanna hafi nokkuð með það að gera hvar bærinn kaupi auglýsingar, vilji sé til þess að gæta jafnræðis. Í skriflegu svari frá Árdísi Ármannsdóttur samskiptastjóra bæjarins við fyrirspurn blaðamanns kemur fram að bærinn hefur á þessu ári greitt bæjarblöðunum tveimur sambærilegar upphæðir fyrir birtingu auglýsinga.

„Í Hafnarfirði eru tvö starfandi bæjarblöð og hafa verið um nokkurt skeið. Ritstjórnarstefna þessara blaða er ólík og er það alfarið ritstjóranna sjálfra að marka stefnuna. Lengi vel var bæjarblaðið eitt og fóru þá allar auglýsingar sveitarfélagsins til bæjarblaða á það eina blað. Eins og staðan er í dag skiptast auglýsingarnar á milli tveggja bæjarblaða og er skiptingin að mestu jöfn milli blaðanna og vilji fyrir því að gæta jafnræðis. Það sem af er ári 2019 (tölur keyrðar úr kerfi 11. desember 2019) hefur Hönnunarhúsið (Fjarðarfréttir) fengið sem nemur 2.583.424.- kr. í tekjur frá sínu sveitarfélagi og Björt útgáfa (Hafnfirðingur) sem nemur 2.848.070.- Enn eiga eftir að berast reikningar fyrir síðustu bæjarblöð ársins og þær auglýsingar sem þar birtast,“ segir í svari Árdísar.

Auglýsingamarkaðurinn beri varla tvö blöð

Guðni segir að fleira hafi áhrif á gengi rekstursins annað en sú tregða sem hann upplifi af hálfu bæjarins við að kaupa auglýsingar af Fjarðafréttum og að í sjálfu sé „ekkert pláss á auglýsingamarkaðnum fyrir tvö blöð“ í Hafnarfirði, þó að þar hafi verið tvö blöð gefin út um nokkurt skeið.

„Auglýsingamarkaðurinn hefur verið á niðurleið hérna líka. Ég veit ekki hvort það er návist við höfuðborgina eða hvað, en minni verslanir hafa ekki verið að auglýsa sig í bæjarblöðunum eins og maður sér í bæjar- eða héraðsmiðlum úti á landi,“ segir Guðni, sem telur útgáfu bæjarblaða mikilvæga og að það sé miður að margir virðist halda að þeir nái best til viðskipavina sinna í gegnum auglýsingar á Facebook.

„Auglýsingamarkaðurinn hefur verið á niðurleið hérna líka. Ég veit ekki …
„Auglýsingamarkaðurinn hefur verið á niðurleið hérna líka. Ég veit ekki hvort það er návist við höfuðborgina eða hvað, en minni verslanir hafa ekki verið að auglýsa sig í bæjarblöðunum eins og maður sér í bæjar- eða héraðsmiðlum úti á landi,“ segir Guðni. mbl.is/Arnþór

„Þó að menn tali oft um að pappírinn sé tímaskekkja þá held ég að bæjarblöðin verði það síðast. Þetta fer inn á hvert heimili, það fletta þessu flestir og þegar þú kemur út á land þá finnst þér gaman að fletta bæjarblaðinu og sjá hvað er að gerast.“

Hafnar því að vera neikvæður

Hann gagnrýnir sveitarfélagið fyrir að vilja helst sjá sjálft um að segja fréttir af sjálfu sér, komin sé „fréttastofa inn í bæjarfélagið sem sér um að matreiða fréttirnar“. Hið sama segir hann að eigi við um fleiri sveitarfélög, opinberar stofnanir og fyrirtæki.

Ritstjórinn segir að hann hafi fengið að heyra frá hafnfirskum stjórnmálamönnum í gegnum árin að hann sé neikvæður í þeirra garð. Hann hafnar því.

„Ég hef sagt við þá, þið megið taka öll blöðin sem ég hef gefið út og skoða þau og ég er fullviss um að í þeim væru yfir 90% jákvæðar fréttir,“ segir Guðni, sem segist þó alltaf rýna í það hvernig orð stjórnmálafólks samræmist raunveruleikanum.

„Það hlýtur að vera eðli blaðamanna að setja þetta fram á hlutlausan hátt eins og þetta liggur fyrir, en ekki gleypa við áróðurstækni pólitíkusanna,“ segir Guðni, sem hyggst halda áfram að gefa Fjarðarfréttir út á netinu, en efast um að auglýsingatekjurnar þar dugi til þess að hann geti verið í fullu starfi við útgáfuna.

Hann segist kveðja prentútgáfuna sáttur með sitt, þrátt fyrir ávirðingar hans í garð bæjaryfirvalda, og kvíðir því ekki að finna sér eitthvað annað að gera sem menntaður innanhússarkitekt og húsgagnasmiður, þó að vikuleg útgáfa Fjarðarfrétta hafi verið skemmtileg.

Hér að neðan má lesa svör samskiptafulltrúa Hafnarfjarðarbæjar við spurningum blaðamanns um þetta mál:

Spurning: Hvernig svarar bærinn þessari gagnrýni sem fram kom í leiðara Fjarðarfrétta í gær?

„Bæjaryfirvöld hafa kosið þá stefnu að kaupa auglýsingar fyrir tvöfalt hærri upphæð á hvert tölublað í blaði sem gætir þess að segja aldrei gagnrýnisorð um bæjarstjórnina. Bæjaryfirvöld hafa kosið að kaupa frekar auglýsingar og kynningar í utanbæjarblöðum og hika ekki við að kaupa jákvæðar kynningar þar. Bæjaryfirvöld hafa frekar kosið að reka eigin fréttastofu og senda helst aðeins frá sér ritstýrt efni. Bæjaryfirvöld kjósa að framleiða viðtalsþætti þar sem valdir starfsmenn bæjarins tala hvor við annan. Bæjaryfirvöld kjósa frekar að gefa út eigin blöð og kosta til þess miklu almannafé án þess að tilgangurinn sé ljós.“

Svar Hafnarfjarðarbæjar: Í Hafnarfirði eru tvö starfandi bæjarblöð og hafa verið um nokkurt skeið. Ritstjórnarstefna þessara blaða er ólík og er það alfarið ritstjóranna sjálfra að marka stefnuna.

Lengi vel var bæjarblaðið eitt og fóru þá allar auglýsingar sveitarfélagsins til bæjarblaða á það eina blað. Eins og staðan er í dag skiptast auglýsingarnar á milli tveggja bæjarblaða og er skiptingin að mestu jöfn milli blaðanna og vilji fyrir því að gæta jafnræðis. Það sem af er ári 2019 (tölur keyrðar úr kerfi 11. desember 2019) hefur Hönnunarhúsið (Fjarðarfréttir) fengið sem nemur 2.583.424.- kr. í tekjur frá sínu sveitarfélagi og Björt útgáfa (Hafnfirðingur) sem nemur 2.848.070.- Enn eiga eftir að berast reikningar fyrir síðustu bæjarblöð ársins og þær auglýsingar sem þar birtast. Auglýsingar um laus störf og skipulagsauglýsingar birtast í Fréttablaði og í einhverjum tilfellum í Morgunblaði. Skipulagsauglýsingar hafa auk þess verið birtar í Fjarðarfréttum.

Stöku auglýsingar um viðburði og menningu Hafnarfjarðar hafa verið birtar í öðrum miðlum enda eitt af hlutverkum sveitarfélagsins að ýta undir heimsóknir innlendra sem erlendra ferðamanna til bæjarins og þar með undir verslun og þjónustu á svæðinu.

Hafnarfjarðarbær rekur ekki eigin fréttastofu heldur lítur á það sem mikilvægt hlutverk sitt að segja frá þeim verkefnum sem í gangi eru innan starfseininga sveitarfélagsins. Er það gert með fréttum á vef sveitarfélagsins sem deilt er áfram á innri og ytri samfélagsmiðla. Þannig er aðgengi að efni fyrir alla hlutaðeigandi mjög greitt auk þess sem stærri fréttum er dreift á alla helstu miðla. Þar sitja bæjarmiðlar við sama borð og aðrir miðlar og er hverjum miðli það í sjálfsvald sett hvernig unnið er með það efni sem sett er fram sem grunnur að tilkynningu frá sveitarfélaginu. Það sem talið hefur verið upp hér að framan er liður í aukinni upplýsingagjöf gagnvart íbúum og öðrum hagmunaaðilum.

Það á einnig við um nýtt hlaðvarp Hafnarfjarðarbæjar, Vitann, þar sem störf sveitarfélagsins og þjónusta eru færð nær samfélaginu gagngert til að auka áhuga og skilning á fjölbreyttum störfum innan sveitarfélagsins.

Hafnarfjarðarbær hefur hin síðustu ár gefið út einstaka sérblöð og var jólablaðið sem hér er vísað til dæmi um slíka útgáfu. Tilgangur jólablaðsins var augljós frá upphafi rétt eins og fram kemur á fyrstu síðu blaðsins, að kynna jólabæinn Hafnarfjörð fyrir Hafnfirðingum og vinum Hafnarfjarðar og þannig má í blaðinu finna upplýsingar um einstaka staði, sérstöðu bæjarins, fólkið sem bæinn byggir, gómsætar uppskriftir og skemmtidagskrá. Rétt er að geta þess eins og fram kemur í svari hér fyrir neðan að jólablaðið er innan fjárhagsramma auglýsinga- og kynningarmála fyrir árið 2019.

Sp.: Hversu margir starfsmenn bæjarins starfa við upplýsingamiðlun/fréttaskrif á miðlum bæjarins? Hefur fjöldi þeirra aukist á síðustu árum? 

Svar: Það er einn starfsmaður starfandi hjá sveitarfélaginu við upplýsingamiðlun og fréttaskrif. Fjöldi starfsmanna hefur ekki aukist á síðustu árum.

Sp.: Hver var heildarkostnaður við útgáfu jólablaðs sem Hafnarfjarðarbær gaf út?

Svar: Heildarkostnaður við útgáfu blaðsins var 3.509.637.- kr. sem skiptist á eftirfarandi kostnaðarliði: 1) Ritstjórn: 300.000.- kr. 2) Hönnun, uppsetning og ljósmyndun:  240.000.- kr. 3) Prentun: 1.795.000.- kr. 4) Dreifing: 1.174.637.-

Útgáfa á jólablaði fyrir Hafnarfjörð er innan fjárhagsramma auglýsinga- og kynningarmála fyrir árið 2019 og liður í framkvæmd á markaðsstefnumótun fyrir Hafnarfjarðarbæ. Rétt er að geta þess að útgáfa á jólablaði tengist að engu leyti bæjarblaðinu Hafnfirðingi og að rétt er að ritstjóri Hafnfirðings er annar tveggja ritstjóra jólablaðsins.

mbl.is