Telur Símann brotlegan vegna enska boltans

Samkeppniseftirlitið telur fyrirkomulag á sölu Símans á áskriftum vegna enska …
Samkeppniseftirlitið telur fyrirkomulag á sölu Símans á áskriftum vegna enska boltans kunni að fara í bága við ákvæði samkeppnislaga.

Samkeppniseftirlitið telur að fyrirkomulag á sölu Símans á áskriftum vegna enska boltans kunni að brjóta gegn samkeppnislögum. Til greina kemur að beita íþyngjandi viðurlögum eða fyrirmælum vegna mögulegra brota. 

Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn í júlí og í dag birti eftirlitið Símanum andmælaskjal þar sem félaginu er gefinn kostur á að koma á framfæri skýringum og gögnum vegna málsins. 

Í andmælaskjalinu kemur fram að stofnunin telur að Síminn kunni að hafa brotið gegn tveimur ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins sem báðar fela í sér bann við samtvinnun á tilteknum þjónustuþáttum. Hins vegar er ekki tekin afstaða í skjalinu til þess hvort 11. gr. samkeppnislaga kunni að hafa verið brotin, sem fjallar um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, hafi mögulega verið brotin. 

Skjalið felur ekki í sér bindandi stjórnvaldsákvörðun heldur er ritað í þeim tilgangi að Síminn geti nýtt andmælarétt sinn samkvæmt stjórnsýslulögum og að málið verði að fullu rannsakað áður en ákvörðun verður tekin.

Í tilkynningu frá Símanum segir að félagið sé þeirrar skoðunar að fyrirkomulag um sölu á þjónustu félagsins sé fyllilega í samræmi við samkeppnislög og þær ákvarðanir sem félagið hefur gengist undir á grundvelli samkeppnislaga. 

mbl.is