Þrjár milljónir til björgunarsveita í Fjallabyggð

Björgunarsveitarmenn á ferðinni.
Björgunarsveitarmenn á ferðinni. Landsbjörg/Óðinn Sigurðsson

Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur ákveðið að styrkja björgunarsveitirnar Stráka og Tind um 1,5 milljónir hvor.

„Bæjarstjórn þakkar enn og aftur björgunarsveitunum fyrir mikið og óeigingjarnt starf við björgunarstörf á meðan að óveðrið gekk yfir,“ segir í bókun.

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt bókunina. Það tekur einnig undir ályktun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem sendir stjórnendum sveitarfélaga og íbúum þeirra sem glíma við afleiðingar óveðursins á dögunum kveðju. Einnig þakkar stjórnin björgunaraðilum, starfsmönnum veitufyrirtækja og öðrum.

Frá Siglufirði.
Frá Siglufirði. Ljósmynd/Mikael Sigurðsson.

„Stjórnin hvetur ríkisstjórn Íslands, Alþingi, Landsnet og veitufyrirtæki til að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að tryggja raforkuöryggi um allt land sem allra fyrst. Það er með öllu óásættanlegt að stór hluti íbúa landsbyggðarinnar búi við slíkt óöryggi sem raunin er. Stjórnvöldum ber skylda til að haga málum þannig að almanna- og öryggishagsmunir verði ávallt hafðir í fyrirrúmi við uppbyggingu og rekstur innviða sem eiga að tryggja öryggi og jöfn búsetuskilyrði allra landsmanna,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert