Alvarleg bilun — heitavatnslaust í nótt

Bilunin er rétt við Bústaðaveg í grennd við Valsheimilið.
Bilunin er rétt við Bústaðaveg í grennd við Valsheimilið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nú um hádegið uppgötvaðist bilun í einni af aðalæðum hitaveitu Veitna í Reykjavík. Starfsfólk Veitna er á staðnum að reyna að draga úr lekanum og áformað er að gera við lögnina í nótt. Viðgerðin kallar á heitavatnsleysi í Reykjavík vestan Snorrabrautar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.

Þar segir að bilunin sé rétt við Bústaðaveg í grennd við Valsheimilið og eru vegfarendur þar beðnir að sýna aðgát. Það kemur í ljós á næstu klukkustundum hvort hægt sé að draga nægilega úr lekanum til að fresta megi viðgerði þar til í kvöld.

Gangi það eftir, verður heitavatnslaust í Reykjavík, vestan Snorrabrautar, frá klukkan 22 og fram eftir nóttu. Æðin sem bilaði er ein af aðalæðum hitaveitunnar, 50 sentímetrar í þvermál, en ástæða þess að vatnsleysi verður svo víðtækt við viðgerðina er að slökkva þarf á dælustöð hitaveitunnar í Öskjuhlíð meðan á viðgerð stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert