Flýtti sér í heiminn eftir snjóflóð

Stúlkan hraðaði sér í heiminn og heilsast henni vel.
Stúlkan hraðaði sér í heiminn og heilsast henni vel. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsta barn sem fæðst hefur á spítalanum á Húsavík í fimm ár kom í heiminn þar í gær. Enginn fæðingarlæknir er á spítalanum og því eru konur á Húsavík sendar til Akureyrar til þess að fæða börnin sín. 

Ástæðan var snjóflóð sem lokaði veginum til Akureyrar. Hinir nýbökuðu foreldrar eru ungir,  að mestu grískir, og hafa búið á Húsavík með hléum í þrjú ár. Þau heita Elena og Kostas Ernst og fæddist þeim stúlkubarn í gær. 

Tveir læknar voru viðstaddir fæðinguna, þó ekki fæðingarlæknar, og tvær ljósmæður sem höfðu þó líklega lokið sinni starfsævi á spítalanum fyrir einhverju, að sögn Kostas. 

„Við ætluðum okkur að fara til Akureyrar. Við hringdum meira að segja á sjúkrahúsið á Akureyri til þess að athuga hvort hún gæti fengið að fæða þar. Vinur okkar hringdi svo í okkur og sagði okkur fréttirnar svo við lögðum ekki einu sinni af stað,“ segir Kostas. 

Óskir um gott gengi rættust

Á fimmtudagskvöld féll 500 metra breitt snjóflóð á veginn í Ljósa­vatns­skarði sem er hluti af hringveginum. Í kjölfarið var veginum lokað, vegna flóðsins, veðurs og frekari snjóflóðahættu.  

Kostas og Elena, nýgift á Íslandi fyrir nokkru síðan.
Kostas og Elena, nýgift á Íslandi fyrir nokkru síðan. Ljósmynd/Aðsend

Spurður hvernig þeim hjónum hafi liðið þegar í ljós kom að þau gætu ekki farið til Akureyrar eins og ætlunin var segir Kostas:

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá vorum við stressuð. Ég hringdi í sjúkrahúsið á Akureyri til þess að vera viss um að við kæmumst ekki og þau settu sig í samband við Vegagerðina. Svo hringdi sjúkrahúsið aftur í mig og mér var sagt að hringja á sjúkrabíl, við kæmumst ekki til Akureyrar. Svo óskuðu þau okkur góðs gengis og það var nákvæmlega það sem við fengum. Það var allt í fínu lagi og við búum reyndar mjög nálægt spítalanum svo þetta var í raun ekkert mikið stress, veðrið var ekkert svo slæmt þó að vegurinn væri lokaður.“

Fæðingin tók klukkutíma

Allt fór því vel að lokum. „Það voru tveir læknar á svæðinu en enginn fæðingarlæknar og sömuleiðis tvær ljósmæður sem mér skilst að séu reyndar komnar á eftirlaun. Þetta gerðist allt mjög hratt og fæðingin gekk vel fyrir sig. Við komum um áttaleytið og um klukkan níu var barnið komið í heiminn. Þau stóðu sig öll mjög vel.“

Kostas segir að hann og Elena hafi verið mjög heppin, þrátt fyrir þessar undarlegu aðstæður.

„Við vorum mjög heppin að vinur okkar benti okkur á að vegurinn væri mögulega lokaður og við þyrftum að gera aðrar ráðstafanir.“

Kostas og Elena eru hæstánægð á Húsavík og ætla sér að búa þar áfram. „Þetta er indælisbær, fallegur og hljóðlátur. Svona hlutir koma víst fyrir þegar þú býrð í smábæ,“ segir Kostas og hlær. 

mbl.is