Raðmorðingi í Reykjavík?

Þórður Pálsson, leikstjóri Brots.
Þórður Pálsson, leikstjóri Brots. Árni Sæberg

Tveir menn eru myrtir með stuttu millibili í Reykjavík. Fljótt á litið virðast þeir ekki tengjast á neinn hátt. Annar er úr undirheimunum en hinn virtur fjárfestir. Verklag morðingjans vekur lögreglu þó ugg; búið er að skera augun úr báðum líkum. Áleitin spurning rís: Gengur raðmorðingi laus í Reykjavík?

Til að byrja með er Katrínu Gunnarsdóttur rannsóknarlögreglukonu falin rannsókn málsins. Hún er metnaðarfull og býr að drjúgri reynslu en á undir högg að sækja í einkalífinu, að því er virðist, og ekki bætir úr skák þegar fram hjá henni er gengið þegar nýr yfirmaður deildarinnar er skipaður. Undir niðri kraumar gremja.

Vegna þess hvernig málið er vaxið er ákveðið að kalla eftir utanaðkomandi aðstoð við rannsóknina. Íslendingurinn Arnar Böðvarsson kemur heim frá Ósló, þar sem hann hefur um árabil starfað hjá norsku rannsóknarlögreglunni. Þau Katrín verða teymi, þvert á vilja beggja og neistar fljúga frá fyrstu kynnum. Meðan við höfum í upphafi aðgang að lífi Katrínar, heimili hennar og fjölskyldu, þá vitum við minna um Arnar. Nema hvað hann hefur ekki átt hamingjuríka æsku. Svo mikið er víst.

Katrín á vettvangi morðs sem framið var við höfnina og …
Katrín á vettvangi morðs sem framið var við höfnina og hrindir atburðarásinni af stað.


Æðislegir höfundar

Þannig liggur landið í Broti, nýjum glæpaþáttum í átta hlutum, sem hefja göngu sína í Ríkissjónvarpinu annan í jólum. Eftir það verður Brot á dagskrá á sunnudagskvöldum.

Hugmyndin að Broti er runnin undan rifjum Þórðar Pálssonar sem einnig leikstýrir þáttunum ásamt Davíð Óskari Ólafssyni og Þóru Hilmarsdóttur.

Þórður útskrifaðist úr The National Film and Television School í Bretlandi árið 2015 með eftirfarandi spurningu á vörum: Hvað tekur nú við? Hann hefur lengi haft brennandi áhuga á sakamálakvikmyndum og -þáttum og langaði að reyna sig við efni af því tagi.

„Eins og svo margir var ég gagntekinn af True Detective á þessum tíma; tvær löggur, eitt sakamál en mörg vandamál. Þá hafði heimildarmyndin Syndir feðranna eftir Ara Alexander Ergis Magnússon djúpstæð áhrif á mig á sínum tíma. Hvers vegna hefur maður ekki heyrt meira um mál af því tagi sem þar eru til umfjöllunar? Þar sem menn leita hefnda fyrir eitthvað sem gerðist í fortíðinni. Ég er ekki að bera Brot saman við þetta tvennt en það hafði klárlega áhrif á mig. Annars hef ég alltaf haft áhuga á þrillerum og langar að vinna innan þess „genre“ eða sviðs. Það heillar mig að vinna innan þessa ramma, að lausn sakamála, þar sem einkalíf aðalpersónanna fléttast inn í söguna líka.“

Þannig er það einmitt í Broti, við fylgjumst með einkalífi lögreglufólksins meðfram morðrannsókninni. „Líf beggja aðalpersónanna er hjúpað ákveðinni dulúð; það kemur strax fram hjá Arnari en dýpra er á því hjá Kötu en við fáum strax aðgang að henni. Út seríuna erum við hins vegar alltaf að sýna nýjar hliðar á aðalkarakterunum.“

Og hraðinn er býsna mikill en tímarammi seríunnar er átta dagar; um það bil einn sólarhringur líður í hverjum þætti.

Björn Thors og Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverkum rannsóknarlögreglumannanna Arnars …
Björn Thors og Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverkum rannsóknarlögreglumannanna Arnars og Katrínar.


Með landsliðið með sér

„Það er æðislegt,“ svarar Þórður þegar spurt er hvernig tilfinning það sé að sjá hugmyndina og söguna lifna við á skjánum. „Svo er ekki verra að hafa landslið leikara með sér í þessu,“ bætir hann við en með hlutverk Kötu og Arnars fara Nína Dögg Filippusdóttir og Björn Thors. „Það var frábært að vinna með Nínu og Bjössa; þau gefa þessum karakterum líf og gera þá mannlega. Sama máli gegnir um aðra leikara.,“ segir hann en í öðrum helstu hlutverkum eru Sigurður Skúlason, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Bergur Ebbi Benediktsson, Valur Freyr Einarsson, Edda Björgvinsdóttir og fleiri.

Nánar er rætt við Þórð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert