Stærsta bilun í áratugi

Lögnin fór í sundur við Bústaðaveg, rétt við Valsheimilið.
Lögnin fór í sundur við Bústaðaveg, rétt við Valsheimilið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhrif af biluninni sem kom upp í einni af aðalæðum hitaveitunnar í Reykjavík við Bústaðaveg í dag eru þau mestu í nokkra áratugi, en heitavatnslaust er vestan Snorrabrautar og að Seltjarnarnesi. Þetta staðfestir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, í samtali við mbl.is. Áhrifanna gætir þó víðar, en Ólöf segir að þrýstingur í Hlíðunum, vestan Kringlumýrarbrautar, hafi lækkað.

Búið er að finna bilunina og vinna nú starfsmenn Veitna að viðgerð. Er gert ráð fyrir að henni ljúki í kvöld eða í nótt, en þegar henni er lokið tekur um tvær til þrjár klukkustundir að ná fullum þrýstingi á kerfið, að sögn Ólafar.

Ekki er sjálfgefið að bilun finnist strax og leka verður vart að sögn Ólafar, en í þetta skiptið reyndist lekinn á þeim stað þar sem grafið var niður á lögnina. Til að stöðva rennsli í lögninni þurfti að stöðva dælubúnað í Öskjuhlíð og segir Ólöf að það sé ein ástæða þess hversu víðtæk áhrif séu af biluninni. Þá sé þetta einnig ein af aðallögnum hitaveitunnar, en um er að ræða 500 mm breiða lögn.

Hér má sjá á hvaða svæði er heitavatnslaust.
Hér má sjá á hvaða svæði er heitavatnslaust. Ljósmynd/Veitur

Ólöf segir að að svo stöddu liggi ekki fyrir hvað olli lekanum og oft sé það þannig að það komi ekki í ljós. Hún segir að að gangi viðgerðin áfallalaust fyrir sig megi íbúar á svæðinu búast við að heitt vatn verði komið á ekki síður en þegar þeir vakna á morgun.

Landspítalinn við Hringbraut og Landakot gáfu út viðvörun vegna bilunarinnar og hefur Landspítalinn gangsett gufukatla til að viðhalda hita eftir bestu getu.

Ólöf segir að Veitur séu ekki með viðbragðsáætlun vegna spítalans þar sem hann hafi sjálfur verið með slíka og þá sé heldur ekki viðbragðsáætlun vegna annarra stofnana eða fyrirtækja á svæðinu. Hins vegar hafi Veitur haft samband við „viðkvæma notendur“ og látið þá vita hvað sé í gangi og bent þeim á að gera viðeigandi ráðstafanir.

Uppfært: Í uppfærslu á heimasíðu Veitna segir að algjört vatnsleysi verði til klukkan 04:00 í nótt.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir.
Ólöf Snæhólm Baldursdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert