Friðargöngur gengnar á þremur stöðum á morgun

Friðargangan hefur verið árviss viðburður og hluti af jólahaldi margra …
Friðargangan hefur verið árviss viðburður og hluti af jólahaldi margra undanfarna áratugi. mbl.is/Golli

Friðargöngur eru orðnar hluti af jólunum hjá fjölmörgum og eins og undanfarin ár verða nokkrar slíkar gengnar víða um land á morgun, Þorláksmessu.

Í Reykjavík stendur Samstarfshópur friðarhreyfinga fyrir göngu niður
Laugaveginn, en sú hefð hefur staðið óslitið frá árinu 1980. Mun göngufólk safnast saman á Laugavegi neðan Snorrabrautar, en það var gert í fyrsta skipti í fyrra. Áður hafði göngufólk safnast saman á Hlemmi, en til að auka öryggi þátttakenda og losna við truflun frá umferð var upphafsstaðnum breytt.

Notast verður við bæði vaxkyndla og fjölnota friðarljós, en þau verður hægt að kaupa á staðnum.

Í göngulok verður stuttur fundur á Austurvelli þar sem Drífa Snædal, forseti ASÍ, flytur ávarp og Eyrún Ósk Jónsdóttir skáld les friðarljóð. Fundarstjóri verður Daníel E. Arnarsson,
framkvæmdastjóri Samtakanna 78.

Á Ísafirði verður einnig gengið, en þar verður lagt af stað frá Ísafjarðarkirkju klukkan 18:00. Eiríkur Örn Norðdahl flytur ávarp og Iwona Samson les ljóð.

Að venju hefst friðargangan á Akureyri klukkan 20:00 og er á vegum Friðarframtaks. Gengið verður frá Samkomuhúsinu niður að Ráðhústorgi. Hlynur Hallsson myndlistarmaður flytur ávarp og Félagar úr Hymnódíu syngja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert