Jörðin gleypti mig

Bryndís Björk Kristjánsdóttir hlaut fjölþætta áverka þegar hún datt ofan …
Bryndís Björk Kristjánsdóttir hlaut fjölþætta áverka þegar hún datt ofan í sprungu. Hún lætur ekki deigan síga og hefur náð góðum bata en glímir þó enn við eftirköst slyssins. mbl.is/Ásdís

Íþróttakennarinn og leiðsögumaðurinn Bryndís Björk Kristjánsdóttir datt ofan í djúpa sprungu haustið 2014. Hún slasaðist illa á höfði og glímir enn við eftirköst slyssins nú fimm árum síðar. Þrjóskan og jákvæðnin fleyta henni langt og lætur hún hverjum degi nægja sína þjáningu.

Þegar kaffið var komið í bollana og stórt croissant á diskinn hóf Bryndís frásögn sína um daginn örlagaríka sem breytti lífi hennar til frambúðar, en einnig um árin þar á eftir. Það er nefnilega oft þannig að sagt er frá slysum, og jafnvel talað við fólk stuttu síðar, en fáir fá að vita hvaða langtímaáhrif slík slys hafa á líf fólks. Það kemur fljótt í ljós að hér er á ferð hörkudugleg og þrjósk kona sem lætur ekki eitt slys koma í veg fyrir að lifa lífinu og njóta þess.

Bryndís hefur ætíð verið mikil útivistarmanneskja. Árið 2013 hóf hún störf sem leiðsögumaður hjá 3-H Travel og vann við að leiðsegja fólki við og ofan í Þríhnúkagíg.

„Svo var ég bara í vinnunni þegar jörðin gleypti mig.“

Sprungan er ansi djúp

Slysið sjálft er í móðu, eða meira en það, því Bryndís man ekkert eftir því. Hún skilur í sjálfu sér ekki hvernig það vildi til að hún datt með höfuðið á undan ofan í sex metra djúpa sprungu. Svo undarlega vildi til að á eftir henni féll bandarískur maður og lenti hann ofan á henni. Hann hafði staðið hinum megin við sprunguna en vitni hafa ekki getað skýrt hvað olli því að þau féllu bæði ofan í sprunguna.

„Sprungan er ansi djúp, að minnsta kosti þar sem ég fór og „kannaði“ hana,“ segir hún.

„Þetta var 26. september, árið 2014. Ég var þarna með tólf manna hóp og það sá í raun enginn hvað gerðist. Það er göngubrú yfir gjána, fimm metra löng, en ég fór oft yfir gjána rétt hjá þar sem hún hafði fallið saman og myndað eins konar brú,“ segir Bryndís og nefnir að gott hafi verið að æfa sig að ganga í ójöfnu þar sem ofan í gígnum sé enginn stígur.

Bryndís hlaut fjölþætta áverka; höfuðkúpubrot, kinnbeinsbrot og auk þess brotnaði augnbotninn og þrír hálsliðir. Einnig blæddi inn á heila og þurfti strax að skera hana upp til að létta á þrýstingi sem myndaðist.

Bryndís hlaut mikla áverka á höfði, augnbotninn brotnaði og þrír …
Bryndís hlaut mikla áverka á höfði, augnbotninn brotnaði og þrír hryggjarliðir. Ljósmynd/Aðsend

„Það er miðjulína þar sem heilahvelin mætast og sú lína hafði hliðrast eitthvað vegna þrýstings og vökvasöfnunar,“ segir Bryndís og bætir við að skipt hafi sköpum hversu fljótt hún komst undir læknishendur. Aðeins leið um klukkustund frá slysinu þar til Bryndís var komin á spítalann.

„Það er stærsta ástæða þess að ég er ekki með alvarlegan heilaskaða eða hreinlega hér til frásagnar.“

Inn í bóluplast

Hvað er það næsta sem þú manst eftir slysið?

„Ég man ekki neitt næstu tíu daga eða svo. Ég veit ekkert hverjir komu í heimsókn til mín á spítalann. Fyrst var mér haldið sofandi og svo dagana á eftir man ég lítið. Það er engin skýr minning frá þessum dögum,“ segir Bryndís. Að vonum hafi öll fjölskyldan verið í áfalli en Jóhann flaug strax heim og var kominn að hlið hennar sólarhring síðar.

„Maður er svo sjálfhverfur í þessu ferli og hefur nóg með sjálfan sig. Það var ekki fyrr en nýlega að ég áttaði mig á því hvað þetta í raun hafði mikil áhrif á alla aðstandendur og miklu meiri áhrif en ég gerði mér grein fyrir í upphafi. Ég sé nú hversu tvísýnt þetta var,“ segir hún hugsi.

„Dóttir mín segist helst vilja vefja mig inn í bóluplast og loka mig inni. Það er mikill ótti í henni.“

95 ára á svipstundu

Bryndís var nokkrar vikur á sjúkrahúsi og þaðan lá leiðin á Grensás. Þar bjó hún í mánuð í stífri endurhæfingu en mætti svo á dagdeild í hálft ár.

„Ég þurfti að læra ýmislegt upp á nýtt; ég missti jafnvægið út af auganu og bólgum í heila. Ég gekk með göngugrind eins og gamla fólkið. Ég gekk lengi með sjóræningjalepp, rosa flott. Án hans endaði ég bara á hliðinni,“ segir hún og brosir.

Bryndís þurfti strax að fara í aðgerð á höfði og …
Bryndís þurfti strax að fara í aðgerð á höfði og ber þess ör. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var andlega hliðin?

„Ég var svo ótrúlega lánsöm að ég datt ekki niður í þunglyndi. Ári eftir slysið fór ég í viðtöl hjá Virk, á núvitundarnámskeið og fékk sálfræðiaðstoð. Ég fór reyndar bara tvisvar til sálfræðings af því mér fannst ég ekki þurfa þess. Auðvitað var ég rosalega döpur, alltaf þreytt og með höfuðverk. Ég var orðin eins og 95 ára á svipstundu.“

„Nú eftir fimm ár er ég komin nálægt því að vera eins og ég var,“ segir hún en viðurkennir þó að hún sé oft þreytt og alltaf með hausverk.

„Ég er alltaf með hausverk, bara mismikinn. Ég þarf að taka mikið af verkjatöflum, sérstaklega ef ég er að gera eitthvað eins og að hreyfa mig.“

Bryndís hefur þurft að læra að lifa með eftirköstum slyssins; höfuðverkjum, minnisleysi, þreytu og orkuleysi. Hún lætur það ekki stöðva sig í að lifa lífinu.

Bryndís fór á Kilimanjaro fjórum árum eftir slysið en hún …
Bryndís fór á Kilimanjaro fjórum árum eftir slysið en hún er mikil útivistarkona og lætur ekkert stöðva sig, enda bæði þrjósk og jákvæð. Ljósmynd/Aðsend

 „Það þýðir ekkert að pirra sig á því. Ég hef sætt mig algjörlega við þetta. Ég er voða lítið fyrir drama og sé litla ástæðu til að velta mér upp úr því sem ekki er hægt að breyta. Ég er jákvæð og þrjósk. En það er hægt að segja: lífið fyrir slys og lífið eftir slys,“ segir hún.

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert