„Það besta sem ég hef gert“

Auður Þórunn ásamt dætrum sínum við útskriftina í dag.
Auður Þórunn ásamt dætrum sínum við útskriftina í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar ég kláraði grunnskólann var þetta það sem mig langaði að gera, en einhvern veginn varð háskólanámið ofan á þá,“ segir Auður Þórunn Rögnvaldsdóttir, dúx Tækniskólans, en hún útskrifast af rafeindavirkjabraut.

Auður hefur áður lokið stúdentsprófi úr Menntaskólanum í Reykjavík og gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Danska tækniháskólanum DTU. „Síðan stóð ég frammi fyrir því fyrir tveimur og hálfu ári að fara aftur á vinnumarkað eftir að hafa verið heima að sinna börnunum. Þá ákvað ég að sækja um,“ segir Auður og sér ekki eftir þeirri ákvörðun. „Þetta er það besta sem ég hef gert.“

275 útskrifuðust frá Tækniskólanum í dag og samkeppnin því hörð. Aðspurð segist Auður ekki hafa búist við að verða dúx skólans. „Mig grunaði kannski að ég yrði hæst í deildinni, en ekki öllum skólanum.“

Barneignir hjálpa til við skipulagið

Uppskriftina að árangrinum segir Auður vera þá sömu og venjulega, skipulag, vinnusemi og metnaður. Aðspurð segir hún að það hafi mögulega hjálpað til að hafa þegar lokið stúdentsprófi og háskólagráðu, en þó hafi barneignir sennilega hjálpað mest til, upp á skipulagið.

Lokaverkefni Auðar var hljóðmagnari og fjarstýring fyrir magnarann. „Ég fékk teikningar frá kennaranum mínum og tók þær svo og smíðaði hann og fjarstýringu.“ Magnarinn prýðir nú stofuna heima hjá henni og segist Auður nota hann til að spila tónlist, ásamt ævafornum hátölurum sem hún fékk að gjöf frá foreldrum sínum. „Ætli þeir séu ekki eldri en ég,“ segir hún og hlær.

Auður hefur ekki sagt skilið við skólann, því hún stefnir nú á nám í kennslufræði og mun strax í vor hefja störf sem kennari við rafeindavirkjadeild Tækniskólans.

Magnarinn, lokaverkefni Auðar.
Magnarinn, lokaverkefni Auðar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert