90% hafa efni á jólunum

10% landsmanna segjast ekki eiga fyrir jólahaldi.
10% landsmanna segjast ekki eiga fyrir jólahaldi. mbl.is/Hari

90% fullorðinna Íslendinga segjast hafa efni á jólahaldinu þetta árið. Þetta kemur fram í þjóðarpúlsi Gallup. Er það eilítið hærra hlutfall en í fyrra þegar 88% kváðust hafa efni á þeim. Til samanburðar svaraði 81% játandi þegar fyrst var spurt að þessu árið 1993. Helst er það ungt fólk sem ekki á fyrir jólunum. 22% fólks undir þrítugt segist ekki hafa efni á jólunum, til samanburðar við 3% aðspurðra 50 ára og eldri.

Þá er, eins og gefur að skilja, nokkur munur á svörum eftir tekjum en 32% þeirra sem hafa tekjur undir 400 þúsund krónum segjast ekki hafa efni á jólahaldinu. Athygli vekur þó að fleiri segjast ekki eiga fyrir jólahaldi í tekjubilinu 550-799 þúsund en 400 til 549 þúsund krónur, eða 17% samanborið við 10%.

Litlar breytingar á jólamatnum

Hamborgarhryggur er vinsælasti jólamaturinn nú sem fyrr. 45% landsmanna hyggjast gæða sér á slíkum á aðfangadagskvöld, álíka margir og í fyrra. Því næst kemur lambasteik en hún verður á borðum 10% landsmanna. Þá segjast 9% aðspurðra ætla að borða rjúpu, 8% kalkún, 3% hnetusteik en aðeins 2% hangikjöt.

Í könnuninni var einnig spurt út í jólapeysueign landans, og kváðust 42% aðspurðra eiga slíka. Töluverður munur er á jólapeysuáhuga milli aldurshópa, en peysurnar njóta mestrar hylli í aldurshópnum 30—39 ára, þar sem 57% aðspurðra segjast eiga slíkan grip, en minnstrar í aldurshópnum 60 ára og eldri, þar sem aðeins 21% búa svo vel. Þá eykst peysueignin með hækkandi tekjum og menntun.

Könnunin var framkvæmd á netinu dagana 29. nóvember til 10. desember og var úrtak 1.547 manns sem valdir voru af handahófi úr Viðhorfahópi Gallups. Þátttökuhlutfall var 50,2%.

mbl.is