Norðmenn með stæla

Brottfluttir Íslendingar halda margir hverjir í hefðirnar yfir jól og …
Brottfluttir Íslendingar halda margir hverjir í hefðirnar yfir jól og áramót. Þá skiptir maturinn miklu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenskur jólamatur er ómissandi þáttur í jólahaldi margra Íslendinga erlendis, sem leita ýtrustu leiða til að verða sér úti um hangikjötið og grænu baunirnar. Meðal þeirra versluna sem aðstoða Íslendinga í þessum erindagjörðum er Nóatún, en fyrirtækið hefur um árabil sent matarkörfur til útlanda með DHL og nær sú starfsemi vitanlega hámarki rétt fyrir jól. Alls sendir Nóatún um 200 jólakörfur um heim allan, en langflestar til Skandinavíu.

Stór markaður er fyrir íslenska jólamatinn í Noregi, þar sem um 9.500 Íslendingar eru búsettir. Hingað til hafa þeir að jafnaði sloppið við að greiða toll af innflutningnum, en nú er öldin önnur.

Umræður hafa skapast um málið á Facebook-hóp Íslendinga í Noregi og virðist allur gangur á því hvort fólk, sem flest hefur nýtt sér þjónustu Nóatúns, hefur þurft að greiða toll eða ekki.

Einn viðmælenda mbl.is er ansi ósáttur við meðferðina hjá norskum tollayfirvöldum. Segist hann árum saman hafa haft fyrir sið að panta jólakörfu frá Nóatúni til Noregs og aldrei verið krafinn um nokkur gjöld.

Hangikjöt, laufabrauð, grænar baunir og rauðkál eru það sem Íslendingar …
Hangikjöt, laufabrauð, grænar baunir og rauðkál eru það sem Íslendingar erlendis sækjast helst í hjá Nóatúni fyrir jólin. Nú hrellir norski tollurinn þá. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Nú ber hins vegar svo við að viðkomandi er krafinn um tæplega 20.000 króna toll af sendingu sem kostaði 22.727 krónur, auk 13.555 króna sendingargjalds. Nemur tollurinn því 88% af vöruverði, eða 55% sé miðað við verð með sendingargjaldi, eins og tolli er tamt.

Í samtali við mbl.is segir starfsmaður Nóatúns, sem sér um DHL-sendingarnar að þær hafi undanfarið ár gengið snurðulaust fyrir sig. Svo lengi sem tollurinn meti sendingarnar sem gjöf frá kaupandanum á Íslandi. „En nafn Nóatúns kemur alltaf við sögu og þegar tollurinn sér það er hann stundum með vesen.“ Um 15-20 sendingar hafi verið stoppaðar í norska tollinum og sendandi krafinn um toll. Þá hafi stöku sendingar verið svo lengi í tollafgreiðslu að kjötið hafi verið rotið er það barst kaupanda. „Við höfum þurft að endurgreiða nokkrar slíkar.“

Bandaríkjamenn loka á kjötinnflutning

Það eru ekki bara norsk tollayfirvöld sem hrella landann því kjötsendingar til Bandaríkjanna eru einnig í uppnámi. Sú breyting tók gildi fyrir síðustu jól, og segir starfsmaður að fjölmargar kjötsendingar hafi verið stoppaðar í tollinum í fyrra og aldrei ratað í hendur kaupenda. „Það var töluvert tjón.“

Nú hefur DHL tekið fyrir kjötsendingar til Bandaríkjanna, en að sögn starfsmanns Nóatúns láta margir engu að síður á það reyna. Svo mikil er eftirspurnin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina