Vegir verða opnaðir í dag

Vegur opnaður eftir snjóflóð 20.12.19
Vegur opnaður eftir snjóflóð 20.12.19 Í Ljósavatnsskarði.

Nú með morgninum átti að athuga stöðu mála í Ljósavatnsskarði í S-Þingeyjarsýslu en hringvegurinn þar var lokaður í gær vegna snjóflóðahættu. Flóð úr hlíðinni við Ljósavatn féll á veginn sl. fimmtudagskvöld og hefur vegurinn á þessum slóðum verið lokaður meira og minna síðan.

Í gær voru raunar allir vegir austan Vaðlaheiðar meira og minna lokaðir vegna ófærðar, til að mynda þjóðleiðin milli Norður- og Austurlands um Mývatns- og Möðrudalsöræfi. Sömu sögu var að segja um veginn yfir Þverárfjall og leiðina til Siglufjarðar úr Skagafirði.

Rafmagn fór af Húsavík um stund í gærmorgun vegna bilunar í línu frá Laxárvirkjun. Húsvíkingar fengu þó fljótlega rafmagn að nýju en víða norðanlands og austan hefur verið unnið að hreinsun lína og tengivirkja.

Greiðfært milli landshluta

Í dag, á Þorláksmessu, verður þokkalegt ferðaveður víðast hvar á landinu í dag og greiðfært milli landshluta, en margir eru nú á faraldsfæti í aðdraganda jóla. Þurrt verður víðast hvar og hægviðri, en allra nyrst á landinu slær vindur í 8-13 m/sek. Norðanlands verður hiti aðeins yfir frostmarki og þar má búast við rigningu en slyddu inn til landsins.

Á morgun, aðfangadag, verður hæg breytileg átt og þokkalegasta veður, en búast má við slydduéljum austanlands. Vestlægar áttir verða svo ráðandi á jóladag svo gera má ráð fyrir stöku éljum á vesturhluta landsins. „Þar sem snjór er á landinu helst hann yfir hátíðina. Jólin verða því hvít svona í stórum dráttum,“ segir Daníel Þorláksson veðurfræðingur í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert