Ölvuð með ungt barn í bifreiðinni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast á vaktinni í gær og í nótt. Hún handtók m.a. karlmann sem var grunaður um líkamsárás við bar í miðborginni, þá var kona handtekin sem sparkaði í lögreglukonu og höfð voru afskipti af nokkrum ökumönnum sem voru undir áhrifum. 

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar. Þar segir að rétt fyrir kl. 18 í gær hafi verið tilkynnt umferðaróhapp í hverfi 108 í Reykjavík. Kona, sem var ökumaður annarrar bifreiðarinnar, var grunuð um ölvun við akstur. Lögreglan segir frá því að konan hafi verið með ungt barn sitt í bifreiðinni og var að brjóstfæða barnið er lögregla kom á vettvang.  Konan var vistuð í fangageymslu fyrir rannsókn máls og kom faðir barnsins  á vettvang og sótti barnið. Tilkynning var ennfremur send til Barnaverndar.

Um kl. 20:20 var maður handtekinn á bar í Hafnarfirði. Hann er grunaður um líkamsárás og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Hann var vistaður í fangaklefa. 

Um kl. 22 í gærkvöldi voru þrír einstaklingar handteknir á heimili í hverfi 101 í Reykjavík.  Fólkið er grunað um vörslu fíkniefna og brot á vopna- og lyfjalögum. Fólkið var vistað fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Rétt fyrir kl. eitt í nótt voru höfð afskipti af konu á bar í miðborg Reykjavíkur. Konan vildi ekki yfirgefa staðinn og var vísað út. Þegar lögreglukona var að rétta konunni veski hennar og yfirhöfn sparkaði konan í lögreglukonuna. Konan var handtekin og færð á lögreglustöð en látin laus að lokum viðræðum.

Um svipað leyti var tilkynnt um innbrot á heimili í miðborg Reykjavíkur. Gluggi var spenntur upp og farið inn en talið að viðkomandi hafi forðað sér þegar innbrotskerfi fór í gang.

Rétt rúmlega þrjú í nótt var svo tilkynnt líkamsárás við bar í miðborg Reykjavíkur. Maður kom út úr leigubifreið og réðst á tvo menn sem þar voru og lamdi þá með flösku. Árásarmaðurinn náði að hlaupa á brott. Ekki er vitað um meiðsl mannanna sem urðu fyrir árásinni. 

Þá hafði, eins og fyrr segir, lögreglan afskipti af nokkrum ökumönnum sem reyndust vera undir áhrifum vímuefna og/eða áfengis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert