Stóðu vaktina í marga sólarhringa

Um 300 starfsmenn Rarik unnu beint eða óbeint að viðgerðum …
Um 300 starfsmenn Rarik unnu beint eða óbeint að viðgerðum á línum og við keyrslu varaaflstöðva og stóðu fjölmargir vaktina í marga sólarhringa, auk þess sem fyrirtækið naut aðstoðar hátt í 200 manna frá öðrum veitufyrirtækjum, verktökum og einstaklingum Ljósmynd/Arnar Valdimarsson

Hæsta viðbúnaðarstigi Rarik var aflétt í gær, 23. desember, og er fyrirtækið nú komið í hefðbundinn rekstur.

Í tilkynningu frá Rarik vegna óveðursins sem gekk yfir landið 10. og 11. desember og hafði áhrif á rafdreifikerfi um land allt segir að gríðarlega vinnu hafi þurft að inna af hendi til að gera við kerfið.

Um 300 starfsmenn hafa unnið beint eða óbeint að viðgerðum á línum og við keyrslu varaaflstöðva, rúmlega 100 frá Rarik og 200 frá öðrum veitufyrirtækjum. Stóðu fjölmargir vaktina í marga sólarhringa, auk þess sem fyrirtækið naut aðstoðar hátt í 200 manna frá öðrum veitufyrirtækjum, verktökum og einstaklingum, en einnig Landhelgisgæslunni sem lánaði varðskipið Þór. 

„Eru þá ótaldar björgunarsveitirnar sem alltaf vinna ómetanlegt starf. Öllu þessu fólki þökkum við aðstoðina og viðskiptavinum okkar sem urðu fyrir rafmagnleysi í kjölfar óveðursins þökkum við þolinmæði og þrautseigju við þessar erfiðu aðstæður.“

Myndin sýnir bilanir í dreifikerfi Rarik á Norðurlandi vegna óveðursins …
Myndin sýnir bilanir í dreifikerfi Rarik á Norðurlandi vegna óveðursins en víðtækar bilanir urðu einnig í öðrum landshlutum. Mun fleiri urðu fyrir truflunum vegna bilana í kerfi Landsnets. Kort/Rarik

Þrátt fyrir að hæsta viðbúnaðarstigi hafi verið aflétt er framundan mikil vinna við að klára endanlegar viðgerðir auk margvíslegrar úrvinnslu, og mun kerfi Rarik líklega þola minna en ella á næstunni, enda laskað eftir hvellinn.

Veðurspáin er batnandi og er það von okkar að viðskiptavinir RARIK geti farið inn í jól og áramót með nægt rafmagn og eigi gleðileg friðarjól.

mbl.is