Agnes þakkar fyrir samstöðu og samstarf í samfélaginu

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flutti jólaávarp sitt í Dómkirkjunni …
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flutti jólaávarp sitt í Dómkirkjunni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, þakkaði í jólaávarpi sínu, sem hún flutti í Dómkirkjunni í dag, fyrir samstöðu og samstarf í samfélaginu í tengslum við óveðrið sem gekk yfir nú í desember. Þakkaði Agnes bæði björgunarsveitum fyrir starf þeirra sem og vinnuveitendum fyrir að leyfa þeim að sinna störfum sínum á vinnutíma. Þá þakkaði hún þeim sem vinna við að laga það sem aflögu fer og nefndi þar meðal annars starfsmenn Rarik og Landsvirkjunar og sagði þá hafa unnið afrek við að hreinsa rafmagnslínur og koma rafmagni aftur á.

Agnes vísaði til þess í ávarpinu að hún hefði sjálf búið stærstan hluta ævinnar vestur á fjörðum og þekkti því vel til rafmagnsleysis. „Hafandi búið vestur á fjörðum megnið af mínu lífi þá veit ég hvernig það er þegar rafmagnið slær út. Þess vegna eru þau sem búa við slíkar aðstæður með vasaljós eða kerti og eldfæri á vissum stöðum í húsum sínum til hægt sé að kveikja ljós í myrkrinu. Verra er þegar rafmagnið gefur líka hita í húsin. Þá verður kuldi, jafnvel nístandi kuldi ef rafmagnsleysið varir lengi.“

Minntist hún líka á skepnur sem hafi enga björg sér getað veitt og sagði bændur norðan heiða ekki hafa verið öfundsverðir af því að bjarga þeim frá kulda og jafnvel dauða.

Agnes nefndi ítrekað mikilvægi samstarfs í ávarpi sínu og sagði að lífið væri samstarfsverkefni Guðs og manns. „Guð kom inn í veröld mannsins og við komum inn í veröld Guðs á þann hátt sem við höfum vit og getu til. Þannig er lífið ekki bara á veraldlegum nótum heldur einnig andlegum. Það hefur nútímamaðurinn áttað sig á, því nú um stundir hefur aldrei verið meiri umræða um hinn andlega þátt lífsins eða meiri ásókn í það sem seður hina andlegu leit mannsins. Veröldin fullnægir ekki öllum þörfum mannsins, veraldlegir hlutir gera það ekki. Þá fyrst þegar hið veraldlega og andlega koma saman náum við að vera sæl og hamingjusöm. Andleg velferð hvers manns er köllun kirkjunnar í samfélaginu.“

Sagði hún þessa köllun birtast meðal annars í baráttu fyrir mannréttindum, umhverfinu og því að leggja rækt á samband manns og Guðs.

Hlýnun jarðar var Agnesi ofarlega í huga í ávarpinu, en hún kom tvisvar inn á málefnið. Sagði hún að mannafólkið gæti ekki ráðið yfir veðrinu, nema þegar til langtíma væri litið. „Nú er ekki lengur hægt að tala um mannaminni þegar um veðurfar og snjóalög er að ræða því hlýnun jarðar af mannavöldum hefur breytt veðurkerfum heimsins.“

Litlu síðar í ávarpinu sagði hún að ekkert væri nýtt undir sólinni. „Þau vandamál sem heimsbyggðin glímir við núna eru flest þekkt, sennilega öll fyrir utan hlýnun jarðar sem fyrri kynslóðir þurftu ekki að glíma við. Sundurlyndi manna á milli og sundurþykkja ríkja í milli eru ekki ný af nálinni, en aðferðirnar og tækin sem við höfum til að bæta það sem bæta þarf eru samt fjölbreyttari en áður var.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert