Maðurinn, goðsögnin, portnerinn

Hannes portner húsvörður segir þetta gott eftir 31 ár. Hann …
Hannes portner húsvörður segir þetta gott eftir 31 ár. Hann hefur staðið vaktina í MR allan þennan tíma, fylgst með þúsundum nemenda koma og fara, og eftir allan þennan tíma getur hann ekki annað en viðurkennt að honum finnist hann eiga svolítið í þeim öllum. Nýir tímar fara í hönd, auðvitað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maður kemur í manns stað. Margur gamall MR-ingurinn er eflaust tvíbentur í afstöðu sinni til þeirra gömlu sanninda nú þessa köldu vetrardaga þegar út spyrst að tíð portnerins sé á enda. Hannes „portner“ Friðsteinsson umsjónarmaður við Menntaskólann í Reykjavík hefur mokað sinn síðasta skafl, hann hefur saltað sínar síðustu tröppur, og eftir áramót er hann hættur og nýr húsvörður tekur við.

Hannes þekkja þær fleiri þúsundir manna sem átt hafa leið um MR allt frá árinu 1988, árinu sem hann hóf störf. Á sama hátt þekkir Hannes þúsundirnar, á jafnvel eitthvað í hverju og einu nemandagreyinu sem hefur farið hér um: „Já, ég á þau öll,“ segir hann við mbl.is í stuttu spjalli á tímamótunum. 

Á sjötugasta og fjórða aldursári, maðurinn er fæddur ‘46, lætur Hannes af störfum og snýr sér að öðru, sem hann þó þvertekur fyrir að eigi nokkuð skylt við helgan stein. Hann á eign í Kjósinni, bústað sem hann hefur verið að byggja upp, og nú stendur til að leggja lokahönd á það verk og setjast þar að með eiginkonunni. 

„Ég ætla að klára að byggja þennan bústað. Það er ekkert helgur steinn, heldur bara helvíti mikið grjót,“ segir Hannes, tilsvörin hjá honum standast sömu gæðakröfur og fyrr, myndmálið samfellt. 

Sínálægur Hannes

Hannes hefur staðið sína plikt á skólasvæðinu í 31 ár og hefur verið ánægður í starfi, að sjálfsögðu, segir hann: „Hér hefur maður verið í öll þessi ár og ekki hefði maður haldið það út ef maður hefði ekki verið ánægður.“ Starfið felur auðvitað í sér allt mögulegt á milli himins og jarðar, allt mögulegt á milli leynilegra háalofta og sögufrægra kjallara. Það er viðhald, viðgerðir, skipulag.

Ekki er þó síður mikilvægt aðhaldið að ungviðinu, sem ber að virða einföldustu umgengnisreglur: Fætur niður af borðum, gluggarnir í Cösu eru hvorki inngangur né útgangur, og það fer illa með stólana að halla sér svona aftur (þó að hönnun þeirra virðist reyndar gera fyllilega ráð fyrir þeim möguleika, eins og ungdómurinn kynni að vilja benda á í rökrembingi sínum).

Hannes hefur á sinn hátt verið föst stærð í lífi nemenda, enda eilíft nálægur: Hann hefur búið í íbúð sinni á skólasvæðinu við Bókhlöðustíg þessi þrjátíu ár. Slíkum húsvörðum, sem hafa fasta búsetu í viðfangi sínu, fer ört fækkandi í stofnunum landsins af einhverjum ástæðum og nú fer í raun hver að verða síðasti móhíkani þess fyrirkomulags, ef það er ekki bara Hannes sjálfur.

Pússaði hátíðarsalinn fyrir þjóðfundinn

Harmafregnin um að portner sé að hætta, sem er þó kannski ekki meiri harmafregn en að því leyti sem hún minnir menn á vægðarlausan gang tímans, var í raun flutt í dagblöðum þegar lýst var eftir nýjum umsjónarmanni fasteigna í MR frá og með 1. janúar. 

Það var auðvitað aðeins eitt sem skilja mátti af þeirri auglýsingu og var hún birt í Facebook-hópnum „Þú varst áreiðanlega í MR ef þú…“ sem ákveðin getraun. Nefnilega: Þú varst áreiðanlega í MR ef þú veist hvað þessi auglýsing þýðir; að Portner er á förum. 

Höskuldur Marselíusarson blaðamaður hlóð myndinni inn í nefndan Facebook-hóp og …
Höskuldur Marselíusarson blaðamaður hlóð myndinni inn í nefndan Facebook-hóp og benti á í hvað stefndi. Margir vottuðu virðingu sína með læki, viðeigandi, enda gengur portner frá góðu búi eftir vel unnið starf. Skjáskot/Þú varst áreiðanlega í MR ef...

Athugasemdir hrönnuðust upp á þessum vettvangi gamalla MR-inga, auk um 160 læka (sem vill svo til að jafnast hér um bil á við meðalfjölda nemenda í útskriftarárgangi í MR). Sumir í hópnum muna auðvitað tímana tvenna og muna að Hannes átti framlag á þeim hvorum tveggja. „Sagt er að hann hafi pússað allan hátíðarsalinn með handtusku fyrir þjóðfundinn,“ segir einn í fúlustu alvöru, minnugur merkrar sögulegrar framvindu sem varð í húsakynnum Gamla skóla um miðja 19. öld. 

Í annarri athugasemd við færsluna er persónan portner kjörnuð í stuttu slagorði: „Maðurinn. Goðsögnin. Portnerinn.“ Það var vel til fundið.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert