Grunaður um brot gegn tveimur konum eftir handtöku

Heimili Kristjáns Gunnars Valdimarssonar.
Heimili Kristjáns Gunnars Valdimarssonar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Gunnar Valdimarsson, lögfræðingur og lektor við Háskóla Íslands, er grunaður um að hafa frelsissvipt og brotið kynferðislega gegn tveimur konum eftir að hann var látinn laus að skýrslutöku lokinni á aðfangadag.

Þetta staðfestir Leifur Runólfsson, réttargæslumaður annarrar kvennanna, í samtali við mbl.is, en fyrst var greint var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Skjólstæðingur Leifs lagði fram kæru vegna málsins í dag og býst hann við því að hin konan hafi gert slíkt hið sama.

Heimili Kristjáns Gunnars hefur verið innsiglað af lögreglunni.
Heimili Kristjáns Gunnars hefur verið innsiglað af lögreglunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hann var að sprauta mig“

Kristján Gunnar var handtekinn aðfaranótt aðfangadags vegna gruns um að hann hafi haldið ungri konu nauðugri á heimili sínu í 10 daga og brotið gegn henni kynferðislega, en hann var látinn laus að skýrslutöku lokinni. Faðir konunnar, Gunnar Jónsson, lýsti annarlegu ástandi dóttur sinnar þegar hún kom út úr húsi Kristjáns Gunnars í fréttatíma Stöðvar 2 og sagði hana ítrekað hafa sagt „hann var að sprauta mig“.

Leifur segir í samtali við mbl.is að Kristján Gunnar hafi þá boðað til nýs partís á aðfangadagskvöld og að til hans hafi komið tvær konur, sem hann er, eins og áður segir, grunaður um að hafa frelsissvipt og brotið gegn. „Hann er sakaður um að hafa frelsissvipt þær, haldið þeim í gíslingu og brotið á þeim þarna um nóttina, aðfaranótt jóladags, þar til önnur þeirra nær að komast í síma,“ segir Leifur.

Krotað hefur verið á bíl lögmannsins.
Krotað hefur verið á bíl lögmannsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var búið að taka alla síma í burtu, en það hafði einn gleymst, svo hún komst í síma og hringdi í móður sína sem hringir svo á lögregluna.“

Í þetta sinn segir Leifur lögreglu hafa brugðist hratt við, komið strax á vettvang, leyst konurnar úr prísudinni og handtekið sakborninginn.

Sömu lög gildi um lektora, lögfræðinga og aðra

Leifur er óánægður með vinnubrögð lögreglu og segir að hægt hefði verið að koma í veg fyrir að Kristján Gunnar bryti gegn konunum tveimur hefði hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald strax eftir fyrri handtökuna. „Ef hann hefði strax verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, sem að mínu mati var fullt tilefni til, þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta. Ég held að lögreglan verði að svara fyrir það.“

Þá segir hann ekki annað hægt en að spyrja sig hvort staða Kristjáns Gunnars í samfélaginu hafi spilað inn í. „Það á ekki að skipta máli hvort þetta sé lektor, lögmaður eða bara Jói glæpon. Það eiga að gilda sömu lög um okkur öll.

Fréttin hefur verið uppfærð með viðtali við Leif.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert