Hefðu getað bjargað konunni sólarhring fyrr

„Ég ætla að vona að þetta séu vinnu­brögð sem lög­reglu­stjór­inn …
„Ég ætla að vona að þetta séu vinnu­brögð sem lög­reglu­stjór­inn á höfuðborg­ar­svæðinu leyf­ir sér aldrei aft­ur. Ástæðan fyr­ir því að þeir fara ekki inn er ekki sú að lög­in heim­ili það ekki, ástæðan er ein­hver allt önn­ur,“ segir Saga. mbl.is/Eggert

„Þessi sólarhringur sem líður skrifast algjörlega með einu og öllu á lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Saga Ýrr Jónsdóttir, réttargæslumaður konu sem lektor í Háskóla Íslands er grunaður um að hafa svipt frelsinu í minnst tíu daga og brotið á kynferðislega. Konan hefur lagt fram kæru. Í kjölfar þess lögðu tvær aðrar konur fram kæru á hendur lektornum.

Að mati Sögu hefði lögreglan getað gripið sólarhring fyrr inn í, þegar lögreglumenn og foreldrar konunnar fóru að húsi hins grunaða, Kristjáns Gunn­ars Valdi­mars­son­ar, til þess að leita konunnar. Þá sagði Kristján að allt væri í fínu lagi og ákváðu lögreglumenn að aðhafast ekkert. Sólarhring síðar var konan færð á bráðamóttöku í annarlegu ástandi.

„Með öllu óafsakanlegt“

Foreldrarnir og lögreglan sáu þó mikið magn fíkniefna á heimilinu og segir Saga að það hefði verið næg ástæða fyrir lögregluna til þess að fara inn á heimili Kristjáns. 

„Það er alveg ljóst að það hefði verið hægt að bjarga stelpunni sólarhring fyrr. Lögreglan hafði fullt tilefni til að fara inn. Hún horfði á fíkniefni þarna inni og fólk að neyta fíkniefna en neitaði samt að fara inn. Við hljótum öll að vera sammála um það að það er ekkert sem afsakar þetta, þetta er með öllu óafsakanlegt,“ segir Saga. 

Saga Ýrr Jónsdóttir, réttargæslumaður konunnar.
Saga Ýrr Jónsdóttir, réttargæslumaður konunnar.

Aldrei séð sambærileg vinnubrögð

Þessi sólarhringur skipti foreldra konunnar og hana sjálfa miklu máli. „Að sjálfsögðu. Ímyndaðu þér hvernig foreldrunum leið og hvernig stelpunni leið, að vera þarna inni í þessum aðstæðum.“

Saga segir stóra spurningu standa eftir án þess að henni hafi verið svarað. „Við hljótum öll að spyrja okkur að því hvað veldur því að lögreglan hikar við að fara inn hjá honum en hikar ekki við að fara inn hjá Jóni Jónssyni.“

Saga hefur aldrei séð vinnubrögð sem þessi áður. „Ég ætla að vona að þetta séu vinnubrögð sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu leyfir sér aldrei aftur. Ástæðan fyrir því að þeir fara ekki inn er ekki sú að lögin heimili það ekki, ástæðan er einhver allt önnur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert