Hefja rannsókn á viðbrögðum vegna óveðursins

Rafmagn fór víða af í óveðrinu eftir að rafmagnstaurar brotnuðu …
Rafmagn fór víða af í óveðrinu eftir að rafmagnstaurar brotnuðu og rafmagnslínur slitnuðu. mbl.is/Þorgeir

Rannsóknarnefnd almannavarna ætlar að koma saman fyrir áramót og hefja mjög umfangsmikla rannsókn á viðbrögðum og viðbragðsáætlunum í óveðrinu sem fór yfir landið í þessum mánuði. Formaður nefndarinnar segir ómögulegt að segja hversu langan tíma rannsóknin muni taka.

„Fyrstu skref í rannsókn eins og þessari er alltaf að kalla eftir gögnum og þá myndum við vilja fá, eins og kemur fram í lögum og drögum að reglugerð, viðbragðsáætlanir og aðgerðaplögg, þ.e. hvernig unnið var eftir þeim,“ segir Herdís Sigurjónsdóttir, formaður rannsóknarnefndar almannavarna, í samtali við mbl.is.

Rannsóknarnefndin hafði aldrei verið virkjuð áður en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra gerði það fyrr í þessum mánuði. Þrátt fyrir það hefur Alþingi kosið í hana með reglubundnum hætti frá árinu 2008.

Fara yfir viðbragðáætlanir og hvernig viðbragðsaðilar unnu eftir þeim

Rannsókn nefndarinnar á að leiða það í ljós hvernig viðbragðsáætlanir hafi verið og hvernig viðbragðsaðilar hafi unnið eftir þeim í óveðrinu og í kjölfar þess, útskýrir Herdís.

„Hver gerði hvað og viðbrögð, og svo líka að fara yfir ferla, þ.e. hvernig viðbragðsaðilar unnu, hvað þeir gerðu og hvað þeir gerðu ekki. Þetta er ekki nefnd sem dæmir neinn og það er ekki hægt að nota okkar niðurstöður eða annað í að dæma aðila. Það er mjög skýrt í lögum,“ bætir hún við.

Blindbylur var á Akureyri á meðan óveðrið stóð yfir.
Blindbylur var á Akureyri á meðan óveðrið stóð yfir. mbl.is/Þorgeir

Rannsókn gæti tekið langan tíma

Spurð hversu langan tíma svona umfangsmikil rannsókn gæti tekið segir Herdís ómögulegt að segja til um það enda sé þetta fyrsta rannsóknin af þessu tagi.

„Það er ómögulegt að segja. Sérstaklega núna vegna þess að þetta er sérlega umfangsmikið og svo er þetta fyrsta rannsóknin og við verðum náttúrulega í mótun verkferla samhliða rannsókn, því stjórnsýslan þarf að vera í lagi.“

Nefndin mun starfa eftir lögum sem og drögum að reglugerð sem dómsmálaráðherra hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á netinu.

„Við byrjum að kalla eftir gögnum enda kemur það ljóst fram í lögum líka að okkur ber að gera það. Ef þau [reglugerðardrögin] breytast eitthvað þá höfum við alveg svigrúm til að breyta til enda er þetta bara upphafið að fyrstu rannsókn,“ útskýrir Herdís.

Herdís Sigurjónsdóttir, formaður rannsóknarnefndar almannavarna.
Herdís Sigurjónsdóttir, formaður rannsóknarnefndar almannavarna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert