Landlæknir færði fálkaunganum Kríu rjúpu

Kría braggast vel dag frá degi en þarf að vera …
Kría braggast vel dag frá degi en þarf að vera í fóstri á Bessastöðum fram yfir áramót. Ljósmynd/Torfi Fjalar Jónasson

Alma D. Möller landlæknir og eiginmaður hennar Torfi Fjalar Jónasson hjartalæknir fóru í vitjun til fálkaungans Kríu á Bessastöðum í dag og færðu henni rjúpu. Kría var ekki lengi að læsa klónum í rjúpuna og tæta hana í sig með fiðri, beinum og öllu.

„Hún var mjög fljót að leggja til atlögu og læsa klónum í rjúpuna. Hún var þvílíkt lukkuleg með þessar rjúpur og þetta skotgekk hjá henni, fiður, bein og allt,“ segir Alma í samtali við mbl.is.

Fálkaunginn Kría hefur verið í fóstri á Bessastöðum síðan á öðrum degi jóla eftir að Friðbjörn B. Möller, umsjónarmaður fasteigna á forsetasetrinu, bjargaði henni frá krunkandi hröfnum eftir að henni hafði fatast flug á túninu á Bessastöðum.

Kría var ekki lengi að leggja til atlögu þegar rjúpurnar …
Kría var ekki lengi að leggja til atlögu þegar rjúpurnar voru komnar fyrir framan hana. Ljósmynd/Torfi Fjalar Jónasson

Fálkar þurfa að éta fiður og bein

Alma, sem er frænka Friðbjörns, var ekki lengi að bjóða fram aðstoð sína þegar hún frétti að frændi sinn væri með fálkaunga í fóstri.

„Ég sendi honum skilaboð um hvort það vantaði æti handa fuglinum. Maðurinn minn er mikill veiðimaður og ég vildi gjarnan koma svartfugli og fleiru úr frystikistunni,“ segir Alma og heldur áfram:

„En þá átti hann nóg af öllu en vildi gjarnan fá rjúpu í ham, því svona fuglar þurfa að éta bæði fiður og bein. Við vorum nýbúin að kyngja síðustu rjúpunni en mágur minn átti rjúpu þannig að við færðum fálkanum tvær rjúpur í morgun.“

Alma þekkir ekki til þess hvers vegna fálkar þurfi að …
Alma þekkir ekki til þess hvers vegna fálkar þurfi að éta fiður og bein auk kjötsins en telur að það gæti tengst kollageni eða öðrum nauðsynlegum efnum. Ljósmynd/Torfi Fjalar Jónasson

Ánægð með fyrstu vitjun sína á Bessastaði

Alma segir þessa óvenjulegu vitjun hafa verið mjög skemmtilega upplifun og sérstaklega hafi verið gaman að sjá fálka í nærmynd og sjá hvernig Kría tók til matar síns.

„Ég hef komið oft á Bessastaði en ekki farið þangað í vitjun. Ég er ekki sérfræðingur í dýrum en mér fannst mjög gaman að fara í vitjun til fugls og ég tala nú ekki um á Bessastöðum.“

Gastu sem læknir lagt mat á ástandið á henni?

„Miðað við þekkingu fannst mér hún líta mjög vel út og hún lítur miklu betur út en þegar Friðbjörn fann hana. Þá var hún ekki vel á sig komin en ég held að hún hafi braggast dag frá degi og mér fannst hún líta rosalega vel út,“ segir Alma.

Kría verður áfram í fóstri á Bessastöðum fram yfir áramót undir vökulu auga fuglasérfræðinga, Friðbjörns og auðvitað Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, þangað til hún er orðin nógu hraust til að fljúga á nýjan leik og bjarga sér sjálf.

Alma Dagbjört Möller landlæknir.
Alma Dagbjört Möller landlæknir. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is