Flugeldum að verðmæti milljón króna stolið í nótt

Flugeldum var stolið af björgunarsveitinni Bróðurhönd.
Flugeldum var stolið af björgunarsveitinni Bróðurhönd. mbl.is

Brotist var inn í húsnæði björgunarsveitarinnar Bróðurhandar undir Eyjafjöllum í nótt og flugeldum stolið. Söluverðmæti flugeldanna er talið nema um einni milljón króna.

„Við seljum bara í einn dag og sem betur fer vorum við búnir að ná okkar söludegi. En það var fullt af flugeldum eftir,“ segir Einar Viðar Viðarsson, formaður Bróðurhandar, í samtali við mbl.is.

Hann segir að hurð á húsnæði björgunarsveitarinnar hafi verið spennt upp með kúbeini einhvern tímann á milli klukkan 22:30 í gærkvöldi og 9:30 í morgun.

Þjófarnir virðast einungis hafa haft áhuga á flugeldum því engu öðru virðist hafa verið stolið.

Stutt er síðan flugeldum var stolið af Hjálparsveit skáta í Kópavogi. Lögreglan var þó fljót að finna þýfið í því tilviki og skila því aftur til réttmætra eigenda.

Samkvæmt heimildum mbl.is var reynt að brjótast inn í húsnæði Björgunarsveitar Landeyja í nótt. Ummerki á húsnæðinu gáfu til kynna að reynt hefði verið að spenna upp hurð á húsnæðinu með verkfæri. Engu var þó stolið eftir því sem mbl.is kemst næst.

mbl.is