Leita áfram inn í nóttina að manni á Snæfellsnesi

Leit er hafin að karlmanni á Snæfellsnesi.
Leit er hafin að karlmanni á Snæfellsnesi. mbl.is/Eggert

Um 300 björgunarsveitarmenn taka þátt í leit af karlmanni á Snæfellsnesi. Áfram verður leitað inn í nóttina en leitarskilyrði eru sæmileg núna en reiknað er með að þau versni á morgun og því er allt kapp lagt á að halda áfram á meðan björgunarsveitarmenn hafa þrek. 

Talið er að maðurinn hafi farið í fjallgöngu en ekki skilað sér, samkvæmt upplýsingum frá Davíð Má Bjarnasyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. 

Leitin beinist að sunnanverðum Haffjarðarmúla í Hnappadal sem er nærri veginum yfir Heydal og nágrenni þess. Á bilinu 10 til 15 spor- og leitarhundar taka einnig þátt í leitinni.

Lögreglan óskaði eftir aðstoð björgunarsveitarmanna um klukkan sex í kvöld í leit að manninum nálægt Eldborg á sunnanverðu Snæfellsnesi. Skömmu seinna var ákveðið að kalla eftir frekari mannskap til leitar. Björgunarsveitir frá Blönduósi og austur að Þjórsá í  Árnessýslu voru kallaðar út. Þær svöruðu kallinu fljótt og vel. 

Í fyrstu var greint frá að maðurinn væri af svæðinu en það er ekki rétt. Beðist er velvirðingar á þeim mistökum.

Fréttin var síðast uppfærð kl. 23:55

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert