Óvíst hvort Kristján Gunnar komi fyrir dómara í dag

Innsigli er á útidyrahurð á heimili Kristjáns Gunnars meðan rannsókn …
Innsigli er á útidyrahurð á heimili Kristjáns Gunnars meðan rannsókn fer fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Meginreglan er að sakborningur sé leiddur fyrir dómara en það eru sumir sakborningar sem kjósa að fara ekki, þannig hann ræður því sjálfur,“ segir Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is varðandi það hvort Kristján Gunnar Valdimarsson verði leiddur fyrir dómara í dag.

„Við gerum alltaf ráð fyrir því að þegar menn eru í haldi hjá okkur að þá þurfi að færa þá fyrir dómara, það er réttur þeirra. En það er allur gangur á því. Það hefur heldur aukist, sérstaklega í fíkniefnamálum, að menn vilji ekki láta sjá sig meðal annars út af myndbirtingum,“ bætir Karl Steinar við.

Farið hefur verið fram á fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald yfir Kristjáni Gunnari vegna rannsóknar á meintum frelsissviptingum, líkamsárásum og kynferðisbrotum gegn þremur konum á þrítugs- og fertugsaldri.

Fer á Hólmsheiði ef gæsluvarðhald verður framlengt

Gæsluvarðhaldskrafan er á grundvelli rannsóknarhagsmuna og til varna því að sakborningur haldi áfram brotum á meðan málum hans er ekki lokuð, en ætluð brot voru framin með skömmu millibili.

Kristján Gunnar var leiddur fyrir dómara í gær en dómarinn gaf sér frest til hádegis í dag til að skila af sér niðurstöðu.

Fari svo að dómari úrskurði Kristján Gunnar í áframhaldandi gæsluvarðhald mun hann verða sendur á Hólmsheiði á meðan gæsluvarðhaldinu stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert