„Frjálslyndu umbótaflokkarnir“ með 47%

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Hari

„Þessi niðurstaða sýnir að það er hægt að breyta til, og við þurfum að breyta til.“ Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar í umræðuþættinum Kryddsíld á Stöð 2. Þar var borin undir formennina niðurstaða skoðanakönnunar sem Maskína framkvæmdi fyrir Stöð 2, en í henni mældist Samfylkingin stærst flokka með 19,0% fylgi.

Benti Logi á að Samfylkingin, Píratar og Viðreisn, sem hann nefndi „frjálslyndu umbótaflokkana“ hefðu samanlagt 47% fylgi, sem væri ákall um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfi, stjórnarskrá og auðlindamálum.

Undir þetta tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og nefndi einnig mikilvægi samstarfs hinna frjálslyndu umbótaflokka. Sagðist hún telja að á nýju ári færi fram af alvöru umræða um upptöku auðlindaákvæðis í stjórnarskrá, til að mynda í ljósi uppljóstrana um starfsemi Samherja. „Við erum engu að síður ekki að tala um að kollvarpa fiskveiðistjórnunarkerfinu,“ sagði Þorgerður.

Forsætisráðherra með frá upphafi

Kryddsíld Stöðvar 2 stendur nú sem hæst. Í fyrsta sinn í nærri þriggja áratuga sögu þáttarins gat forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, mætt á réttum tíma í þáttinn. Öll ár hingað til hefur áramótaávarp forsætisráðherra verið tekið upp í Ríkisútvarpinu á sama tíma og Kryddsíld fer fram og forsætisráðherra því mætt seint í þáttinn. Í upphafi þáttar sýndu þáttastjórnendur myndband þar sem sjá mátti eldri forsætisráðherra ganga í myndver í miðjum þætti.

Kryddsíld Stöðvar 2 stendur nú yfir.
Kryddsíld Stöðvar 2 stendur nú yfir. Skjáskot/Vísir

„Einhverra hluta vegna kemur Ríkissjónvarpið svona fram við okkur,“ sagði Heimir Már Pétursson þáttastjórnandi gramur er hann kynnti Katrínu Jakobsdóttur til leiks í Kryddsíldinni í fyrra.

Nú hefur fyrirkomulaginu fengist breytt, en áramótaávarpið var tekið upp í Efstaleiti í morgun, rétt fyrir Kryddsíld.

„Þau sem horfa á áramótaávarpið munu taka eftir því að ég les mjög hratt,“ sagði Katrín í þættinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert