Ljósmóðir draumur hjá dúx í flugvirkjun

Diljá Kristjánsdóttir hlaðin verðlaunum eftir útskriftina.
Diljá Kristjánsdóttir hlaðin verðlaunum eftir útskriftina. Ljósmynd/Aðsend

Diljá Kristjánsdóttir og Erla Björg Valþórsdóttir luku námi í flugvirkjun í Tækniskólanum í Reykjavík á dögunum. Þær voru verðlaunaðar fyrir framúrskarandi árangur en þetta er í fyrsta skipti sem tvær konur brautskrást sem flugvirkjar frá skólanum á sama tíma.

Þegar Diljá var í Menntaskólanum í Reykjavík ætlaði hún sér að verða ljósmóðir. „Mér fannst það eitthvað svo spennandi,“ rifjar hún upp. Hún byrjaði því í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands, en hætti því eftir eitt ár. „Eftir á að hyggja fannst mér ekki þess virði að fara í fjögurra ára nám í hjúkrun til þess að útskrifast sem ljósmóðir tveimur árum seinna. Ég held reyndar að það eigi að breyta fyrirkomulaginu og ef það gerist má vel vera að ég eigi eftir að verða ljósmóðir. Ég hef ekki lokað á það en eins og stendur hugsa ég bara um flugvirkjunina, enda er starfið mjög skemmtilegt.“

Krefjandi nám

Vinna í skólafríi hjá Air Atlanta í sjö sumur og um jól kveikti áhugann á flugvirkjun hjá Diljá, sem var með besta sameiginlegan árangur í bóklegu og verklegu námi í flugvirkjun. „Ég vann meðal annars við að skrá inn það sem flugvirkjar fást við og það varð til þess að ég ákvað að fara í þetta nám,“ segir hún.

Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. desember.

Námið reyndist erfiðara en Diljá átti von á. „Skóladagurinn var mjög langur og 7,5 var lágmarkseinkunn til þess að ná prófum,“ segir hún. „Ég var í raun í skólanum frá klukkan átta á morgnana til tíu eða ellefu á kvöldin og líka alltaf að læra um helgar. Þetta var ekki auðvelt en mér finnst gaman að læra og þetta gekk vel.“

Diljá lauk bóklegum hluta námsins síðastliðið vor og hefur verið í verklega náminu síðan. Frá því í haust hefur hún unnið við flugvirkjun hjá Air Atlanta í Liége í Belgíu. Hún vinnur á vöktum, er þrjár vikur ytra og þrjár vikur heima á Íslandi, og gerir ráð fyrir að taka sveinsprófið eftir tæplega tvö ár. „Þetta er mjög skemmtilegt, góðir samstarfsmenn og áhugavert starf,“ áréttar hún.

Diljá vinnur við Boeing 747-400-vélar hjá Air Atlanta. Hún segist ekki vera flugvélanörd en njóti þess að sjá vélar á lofti og spennandi sé að gera við þessar stóru vélar. „Dagurinn er fljótur að líða og ég bíð spennt eftir hverjum degi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert