Loftslagsmálin stærsta verkefni samtímans

„Stjórnmál Framsóknar eru stjórnmál umbóta og sátta, ekki byltinga. Fyrir …
„Stjórnmál Framsóknar eru stjórnmál umbóta og sátta, ekki byltinga. Fyrir mér eiga stjórnmál að gefa fólki von, þau eiga að sameina fólk frekar en sundra,“ skrifar Sigurður Ingi Jóhannson formaður Framsóknarflokksins í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Stjórnmál Framsóknar eru stjórnmál umbóta og sátta, ekki byltinga. Fyrir mér eiga stjórnmál að gefa fólki von, þau eiga að sameina fólk frekar en sundra,“ skrifar Sigurður Ingi Jóhannson formaður Framsóknarflokksins í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu í dag.

Þar fjallar Sigurður Ingi Framsóknarflokkinn, bankahrunið, ríkisstjórnarsamstarfið, kjaramál og loftslagsmál, auk annars. Sigurður Ingi byrjar á því að vitna til Jónas Hallgrímssonar, sem hann segir að eigi sérstakan sess í hjarta framsóknarmanna, „því orðið framsókn er nýyrði skáldsins sem kom fyrst fram í þýðingu Jónasar á kennslubók í stjörnufræði.“

„Nú er liðinn rúmur áratugur frá því að bankakerfi Íslands hrundi. Margir eru enn brenndir af því enda fólst í þessu hruni ekki síður áfellisdómur yfir framferði íslenskra viðskiptajöfra og að mörgu leyti máttleysi kerfisins til að vernda hagsmuni almennings gagnvart háttsemi þeirra. Þessi áratugur hefur einkennst af sársaukafullu uppgjöri við þennan tíma og öllu því vantrausti og tortryggni sem hruninu fylgdi. Það tekur langan tíma að græða þau sár og lægja öldur tortryggninnar. Sú ríkisstjórn sem nú er við völd var mynduð til að ná sátt í samfélaginu, skapa jafnvægi og vinna að mikilvægum uppbyggingarmálum á innviðum samfélagsins. Og nú þegar kjörtímabilið er ríflega hálfnað hefur okkur miðað ágætlega,“ skrifar Sigurður Ingi, sem kveðst ánægður með lendinguna í kjarabaráttunni á almennum vinnumarkaði í vor.

„Niðurstaða samningsins var mikið framfaraskref og öllum sem þar komu að til mikils sóma. Samningsaðilar sýndu að þeir gerðu sér grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem hvíldi á þeirra herðum. Niðurstaða samninganna var hófsöm og hlúði fyrst og fremst að kjörum þeirra lægst launuðu og þá ekki síst með útspili ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Því öll viljum við að fólk njóti almennilegra lífskjara á landinu okkar,“ ritar formaðurinn.

Hann segir loftslagsmálin stærsta verkefni samtímans: „Skiptir þá engu hvort fólk talar um hamfarahlýnun, hlýnun jarðar, súrnun sjávar eða neyðarástand í loftslagsmálum: verkefni okkar allra, ekki síst stjórnmálanna, er að taka með ábyrgum hætti á loftslagsvandanum. Þá er verkefni stjórnmálamanna ekki hvort taka skuli á vandanum heldur hvernig það er gert. Þar er að mörgu að hyggja, ekki síst þarf að huga að því að það bitni ekki á þeim sem minna mega sín. Hagsmunir þjóðfélagsins felast í því að gæta að hagsmunum komandi kynslóða.

Við sigrumst ekki á þessari ógn með því að láta hnútasvipuna dynja á bakinu eða með skattlagningu eina að vopni. Við þurfum að nýta almenna viðhorfsbreytingu til að leysa verkefnið með hjálp vísinda og tækni. Það er verkefni einstaklinga og atvinnulífs en stjórnmálin þurfa að varða leiðina að markmiðinu. Það er ljóst að markmiðinu verður ekki náð nema með samvinnu og sátt,“ skrifar Sigurður Ingi, sem fjallar einnig um fárviðri sem gekk yfir landið í desember.

„Ofviðrið leiddi í ljós brotalamir í kerfum okkar og þá sérstaklega hvað viðkemur raforkuöryggi. Það er verkefni næstu vikna að rannsaka hvað fór úrskeiðis og koma með tillögur að úrbótum. Framsókn hefur alla tíð lagt mikla áherslu á að tækifæri séu jöfn hvar sem fólk kýs að búa á okkar stóra landi. Þar er grundvallaratriði að samgöngu-, fjarskipta- og raforkukerfi séu öflug um allt land. Við höfum náð undraverðum og einstökum árangri á heimsvísu þegar kemur að útbreiðslu háhraðanets og stórsókn í samgöngumálum er hafin. Greinilegt er að við þurfum að horfa til eflingar raforkukerfisins á sama hátt og samhliða vinna að jöfnum raforkukostnaðar – sami dreifikostnaður um allt land enda auðlindin í eigu þjóðarinnar allrar,“ skrifar formaðurinn.

Áramótagrein Sigurðar Inga má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, gamlársdag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert