Reksturinn auðveldari en á Íslandi

Guðmundur Halldór Atlason framreiðslumeistari, betur þekktur sem Muggur meðal samferðamanna …
Guðmundur Halldór Atlason framreiðslumeistari, betur þekktur sem Muggur meðal samferðamanna sinna, keypti í fyrra við fjórða mann sportbarinn Eugen's á Tenerife. Hann segir ekkert gefið í veitingabransanum og þar sé barist til síðasta blóðdropa. Muggur segir umhverfi veitingarekstrar á Íslandi mun þyngra í vöfum en á Spáni þrátt fyrir mikinn pappír og mikil formlegheit í suðrinu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Við erum fjórir sem erum skráðir sem eigendur hérna, ég, Magnús Árni Gunnarsson markaðsfræðingur, Níels Hafsteinsson framreiðslumeistari og Mikael Nikulásson. Við Magnús höfum unnið lengi saman heima á klakanum við rekstur skemmtistaða og veitingastaða og í raun og veru langaði okkur bara að breyta um umhverfi og dettum svo inn í samstarf með Nilla og Mikka.“

Svo greinir Guðmundur Halldór Atlason framreiðslumeistari, þó flestum kunnur undir stuttnefninu Muggur, frá aðdraganda og tilurð rekstrar þeirra fjórmenninga á sportbarnum St. Eugen‘s í Adeje á Tenerife, bar sem hefur fótboltaunnendur breska heimsveldisins sem sinn höfuðmarkhóp en lætur þó dyrnar standa öllum opnar enda mátti heyra íslensku úr öllum áttum þar í heimsókn á föstudaginn.

Viðtalið sem hér vitrast var þó tekið síðdegis í gær þegar Muggur fann með herkjum 15 lausar mínútur mitt í krefjandi undirbúningi staðarins fyrir kvöldið í kvöld, það síðasta á árinu 2019.

Breska heimsveldið atkvæðamest

„Við vorum farnir að skoða þetta í byrjun síðasta árs og svo þróast málin bara og við kaupum þennan stað í byrjun júlí og opnum í ágúst,“ segir vertinn og bætir því við að þeir félagar hafi fyrir opnunina lagst í töluverðar endurbætur á staðnum, sett upp nýtt hljóðkerfi og fjölda stórra sjónvarpsskjáa þar sem ætlunin var að reka alvörusportbar.

Það ætlunarverk virðist hafa gengið ágætlega eftir, gengið er inn í bjart rými sem er að mestu leyti opið, og þeir sem það vilja geta valið sér borð í sólskini, en neðri hæð, stór aflangur salur, afhjúpar sportbar eins og flestir myndu skilgreina slíkan, sjónvarpsskjáir hvert sem litið er, knattborð að ógleymdri æð lífsins, barnum.

„Við gerum að langmestu leyti út á breska viðskiptavini, um 95 prósent af kúnnahópnum okkar eru Bretar, Írar og Skotar en Íslendingunum í hópnum er alltaf að fjölga. Staðsetningin okkar er náttúrulega þannig að við getum ekki verið að einblína á einhvern einn kúnnahóp, það er svolítið að skjóta sig í fótinn, þannig að við erum bara sportbar og cabaret-bar með lifandi tónlist á hverju kvöldi, bjóðum alla velkomna en erum Íslendingar sem rekum þetta,“ lýsir Muggur hugsjóninni á bak við St. Eugen‘s.

Spænskukunnáttan þrándur í götu

Hann segir fjölda Íslendinga koma á barinn þegar íþróttaviðburðir eru á skjánum en minna sé um þá þegar boðið er upp á skemmtun á borð við George Michael-dans-show og annað sem dæmigerðir Íslendingar legðu kannski ekki leið sína á við hið sígilda íslenska djamm. Þetta sé Bretum þó tamara.

Í gær birti mbl.is viðtal við ferðaþjónustunaglana Önnu B. Gunnarsdóttur og Jóhann K. Kristjánsson sem reka hjóla- og rafskutluleigu á Tenerife og sögðu frá spænsku pappírs-, ljósrita- og formlegheitafargani við að hefja rekstur í landinu. Hvernig rímar reynsla þeirra við fyrstu skref fjórmenninganna í barrekstrinum?

„Það er ekki auðvelt,“ játar Muggur með bros á vör, „mikil pappírsvinna, mikil vinna við að búa til tengslanet, koma á samböndum við birgja og það að vera ekki með spænskuna á hreinu hefur alveg tekið sinn toll þannig að við höfum þurft að treysta rosalega mikið á gott starfsfólk með okkur til að hjálpa okkur með þessa hluti,“ segir hann enn fremur og má ráða að ljónin á spænska veginum hafi verið ófá og skæð.

Orðsporið besta markaðssetningin

Framreiðslumeistarinn segir fyrstu skref þeirra félaga þó hafa gengið vonum framar. „Við erum þrír sem sjáum um daglegan rekstur á fyrirtækinu, Mikki [Mikael Nikulásson] er sá eini sem er enn þá á Íslandi þar til hann ákveður að koma út í sólina,“ segir Guðmundur. Hvernig lýsir hann dæmigerðum vinnudegi?

„Við gerum allt sem venjulegt starfsfólk þarf að gera á gólfinu, hlaupum í allt og sinnum öllu sem kemur náttúrulega í viðbót við pappírsvinnu, undirbúning, innkaup og laun. Það er mikil pappírsvinna sem fylgir því að vera hérna á Spáni og það þarf að passa að allt sé rétt og vel gert.“

Neðri hæðin á Eugen's-sportbarnum er huggulega úr garði gerð og …
Neðri hæðin á Eugen's-sportbarnum er huggulega úr garði gerð og mátti heyra þar íslensku talaða við mörg borð á föstudaginn og án efa flesta aðra daga. Bretar eru þó þungamiðja viðskiptamannahópsins og ber matseðill staðarins keim af því, hægt að panta sígildan enskan morgunverð frá tíu til fimm. Karen Rut Ólafsdóttir, kona Guðmundar, eða Muggs, tók af ósérhlífni að sér hlutverk ljósmyndara þrátt fyrir barnapössun og annað annríki. Ljósmynd/Karen Rut Ólafsdóttir

Hvernig skyldu þeir félagarnir þá haga markaðssetningu sinni í landi þar sem menningin er þeim framandi og gildin önnur en þau er Frónbúinn þekkir. Varla birtast kúnnarnir bara af sjálfsdáðum eða hvað?

„Ótrúlega mikið,“ segir Muggur, „besta markaðssetningin er náttúrulega bara orðsporið, að fá fólkið inn sem talar vel um þjónustu, verð, atriðin sem eru í gangi á kvöldin og bara vera með þennan „consistency factor“,“ slettir vertinn að sið sannra riddara við hringborð markaðarins og á þar við sjálfkvæmni, að rekstur staðarins streymi fram í mótsagnalausri framvindu.

„Þú vilt ganga að því vísu að þú fáir sama hlutinn þegar þú kemur viku seinna, mánuði seinna eða ári seinna, nákvæmlega eins og þetta er á Íslandi og í raun bara hvar sem er í heiminum,“ segir Muggur og leynir sér ekki að áralöng reynsla af veitingarekstri og haldgóð menntun í fræðunum sameinast þar í einni og sömu persónunni.

Þurfa að drekka tíu bjóra

Hann segir þá félaga leggja mjög mikið upp úr því að framangreint sé á hreinu, staðurinn sé vel mannaður, allar veitingar séu til eftir því sem hægt er og að viðskiptavinir geti gengið að því sem þeir búast við.

St. Eugen's er ágætlega staðsettur miðsvæðis í Adeje, skammt frá …
St. Eugen's er ágætlega staðsettur miðsvæðis í Adeje, skammt frá vinsælum strandlengjum á Suður-Tenerife. Hinum megin við götuna er írskur bar og annar skoskur skammt undan svo segja má að keltneskur andi svífi yfir vötnum þessara gatnamóta. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Trauðla verður hjá því komist að spyrja mann, sem nú þekkir veitingarekstur í ranni svo ólíkra þjóða á eigin skinni, í hverju munurinn felist helst þegar litið er til bransans á Íslandi annars vegar og svo hér í syðstu véum hinna spænsku.

„Þetta eru allt öðruvísi tölur sem þú ert að vinna með,“ svarar Muggur, „bæði innkaup, laun og rekstrarkostnaður.  Heima á Íslandi ertu náttúrulega að vinna í því að fá miklu hærri upphæðir fyrir hvern drykk eða hvern mat eða hvað sem það er. Þú ert kannski að selja bjór á 1.300 krónur á meðan að við erum að selja bjórinn hérna á 300 krónur, þannig að þú þarft að selja miklu meira magn af vörum en þú ert vanur heima á Íslandi. Það er alveg nóg að Íslendingur kaupi sér þrjá drykki á meðan hérna úti verðurðu eiginlega að vonast til þess að fólki finnist bjórinn góður og drekki tíu bjóra yfir fótboltaleiknum,“ útskýrir hann.

Rifsberjagin og sykurpúðagin

Blaðamaður hitti íslensk skólasystkin aldarinnar sem leið á St. Eugen‘s í síðustu viku og vakti þá óvenjuveglegt ginúrval athygli, staðurinn heldur úti sérstökum drykkjarseðli fyrir gin með nálægt 20 tegundum. Hvernig má þetta vera?

„Gin er náttúrulega bara þessi vara sem fólk er að detta meira og meira í,“ svarar Muggur. „Fólk vill fá mikið úrval af gini og sú eftirspurn sem við heyrðum hvað mest um þegar við vorum að byrja hérna og við vildum þá auðvitað geta staðið undir því. Við erum með mörg skemmtileg gin, margt sem hefur ekki sést á Íslandi,“ segir Muggur og nefnir sérstaklega rifsberjagin og sykurpúðagin og minntist blaðamaður þess að hafa virkilega þurft að herða upp hugann til að smakka hið síðarnefnda í téðu samsæti þegar gömul skólasystir otaði glasinu glottandi að honum. Ekki reyndist það þó með öllu illt.

Muggur er störfum hlaðinn, gamlárskvöld fram undan, áramót og handan þeirra árið 2020 hvað sem það ber í skauti sér. Ein þeirra lokaspurninga sem til greina komu snýr að rekstrarumhverfi á Spáni samanborið við Ísland. Fleiri viðmælendur en hann hafa talað um pappírsfargan og formlegheit. Er meira puð að reka fyrirtæki hér en á Íslandi?

„Munurinn á því liggur helst í launakostnaði. Í veitingarekstri á Íslandi ertu að horfa á launakostnað kannski frá 40 upp í 50 prósent af veltunni en hérna úti eru tölurnar mun viðráðanlegri. Því miður er rekstrarumhverfi í veitingabransanum á Íslandi mjög erfitt vegna þess að þar er svo mikið af aukakostnaði,“ útskýrir framreiðslumeistarinn, „það er þannig ekkert svo mikið sem situr eftir. En vinnan hérna er ekkert gefins, það er hægt að reka fyrirtæki illa hérna eins og alls staðar í heiminum. Þú verður að vera með þekkinguna bak við hlutina og vinna hörðum höndum. Það er enginn sem kaupir rekstur og sest svo á rassinn og bíður eftir að peningurinn komi inn,“ segir hann glettinn og bætir því við í lokin að rekstrarumhverfi hérna sé skemmtilegra en á Íslandi.

Gengið er inn á efri hæð staðarins þar sem sóldýrkendur …
Gengið er inn á efri hæð staðarins þar sem sóldýrkendur geta svalað sér á bolta, bjór og breskum morgunverði en á hæðinni fyrir neðan sver útlitið sig töluvert meira í ætt við ölkeldur knattspyrnuáhugamanna á Íslandi, tuttugu skjáir og nóg af bjór, enda starfaði Muggur þar sín fyrstu ár í bransanum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Bónusspurningin, svona í tilefni áramóta, hlýtur þá að snúast um hvað bíði gesta St. Eugen‘s á gamlárskvöld. „Partýið byrjar í fyrri kantinum. Phil Francis gítarleikari hitar upp á pallinum frá hálfátta og svo verðum við með þrjú atriði á sviðinu niðri sem eru Erin O‘Connor soul-poppdíva, Queen tribute og að lokum spila T2K frá kortér yfir miðnætti á nýja árinu. Mikið fjör og mikil gleði eins og Tenerife hefur upp á að bjóða,“ eru lokaorð Guðmundar Halldórs Atlasonar, eins fjögurra íslenskra eigenda sportbarsins St. Eugen‘s á Tenerife, svo þá er ekki annað eftir en að kveðja hann með virktum og ganga út í tæplega 30 stiga hita, veruleika nokkur þúsund Íslendinga í spænsku paradísinni Tenerife þessi áramótin.

mbl.is

Bloggað um fréttina