„Eiginlega allt“ breytt í ferðaþjónustunni

Ólöf á góðum degi, umvafin sauðfé.
Ólöf á góðum degi, umvafin sauðfé. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta kom mjög mikið á óvart, ég verð að viðurkenna það. Ég hélt eiginlega að þetta væri bara plat,“ segir Ólöf Hallgrímsdóttir, bóndi í Mývatnssveit. Hún var í dag sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu ásamt þrettán öðrum.

Ólöf hlaut orðuna fyr­ir fram­lag sitt til ferðaþjón­ustu og at­vinnu­lífs í heima­byggð. Ólöf hefur starfað innan ferðaþjónustunnar nánast óslitið síðan hún hóf sinn starfsferil skömmu eftir fermingu. 

„Síðan þá höfum við verið að byggja okkar eigið fyrirtæki sem heitir Vogafjós. Þar erum við með veitingastað og hefðbundin búskap. Í raun var hugmyndin sú að opna búið fyrir gestum og nýta það sem er á svæðinu eins mikið og hægt er. Við nýtum okkar afurðir á veitingastaðnum en við erum bæði með kýr og kindur,“ segir Ólöf.

Alls 52 herbergi

Sömuleiðis bjóða þau hjá Vogafjósi upp á gistingu á gistihúsi. „Þar erum við með 26 herbergi fyrir gesti en þar sem við búum á svæði þar sem við þurfum eiginlega að flytja inn starfsfólk þá erum við líka með 26 herbergi fyrir starfsfólkið okkar,“ segir Ólöf. 

Hjá Vogafjósi starfa um 40 manns yfir sumartímann og tuttugu manns yfir veturinn.

„Við byrjuðum eiginlega með tvær hendur tómar en ég og mín fjölskylda og bróðir minn og hans fjölskylda hafa staðið að þessari uppbyggingu. Það má ekki gleyma því að ég stend ekki að þessu öllu ein, þó ég sé kannski í brúnni þá hef ég haft góða bakhjarla.“

Vogafjós var opnað fyrir gestum árið 1999 og átti starfsemin því tuttugu ára afmæli í fyrra. Ólöf segir að ekki hafi verið ráðist í stórtæka uppbyggingu til að byrja með. 

„Góðir hlutir gerast hægt og við höfum haft það að leiðarljósi allan þennan tíma. Ég held að það hafi hreinlega skilað sér hjá okkur.“

Ólöf með fríðu föruneyti við athöfnina á Bessastöðum í dag. …
Ólöf með fríðu föruneyti við athöfnina á Bessastöðum í dag. Hún er sú fjórða frá vinstri. mbl.is/Árni Sæberg

Opið býli býður gestum upplifun

Á þessum rúmu tuttugu árum hefur ferðamannabransinn á Íslandi auðvitað breyst umtalsvert. Ólöf segir að breytingarnar séu gríðarlega miklar og „eiginlega allt“ hafi breyst. Fleiri sækja Vogafjós heim en áður og nú sé hægt að hafa þar opið allan ársins hring þó árstíðarsveiflur í rekstrinum séu umtalsverðar. 

Ferðaþjónusta í Mývatnssveit er ekki ný af nálinni og hefur slík starfsemi verið starfrækt í háa herrans tíð. Þau hjá Vogafjósi voru þó með þeim fyrstu sem opnuðu býli sitt fyrir almenningi. 

„Það er ákveðin upplifun fyrir gesti að koma inn á svona opið býli, það gengur ekki bara inn á venjulegan veitingastað,“ segir Ólöf að lokum.

mbl.is