Fyrsta barn ársins vó tæp 6 kíló

Berglind og Stefán ásamt börnunum sem þau áttu fyrir. Emil …
Berglind og Stefán ásamt börnunum sem þau áttu fyrir. Emil er þeirra þriðja barn. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsta barn ársins er drengur og hefur hann nú þegar hlotið nafnið Emil Rafn. Hann var 24 merkur að þyngd. Að sögn ljósmóður á Landspítalanum eru börn sem vega 24 merkur með þeim stærri sem fæðast hérlendis. 

Hinir nýbökuðu foreldrar heita Berglind Bjarnadóttir og Stefán Halldór Jónsson en Emil er þeirra þriðja barn. Fyrir eiga þau Stellu Björt sem er sex ára gömul og Grétar Loga sem fæddist árið 2018 og er því rétt rúmlega eins árs. 

Stefán segir í samtali við mbl.is að það hafi verið óvænt að Emil hafi komið í heiminn árið 2020 en settur dagur var í gær. Emil fæddist á fæðingardeild Landspítalans klukkan 2:19 í nótt og dvelur nú á vökudeild Landspítalans og jafnar sig eftir átök næturinnar. 

Ekkert að spá í orlofsreglur

Móður hans heilsast vel en Emil var 59 sentímetrar og tæp sex kíló (24 merkur) að stærð. 

Ný lög um greiðslur úr fæðing­ar­or­lofs­sjóði taka gildi í dag. Þannig mun sam­an­lagður rétt­ur for­eldra barna sem fæðast, eru ætt­leidd eða tek­in í var­an­legt fóst­ur 1. janú­ar 2020 eða síðar lengj­ast um einn mánuð eða úr níu mánuðum í tíu. Spurður hvort foreldrarnir væru ekki ánægðir að fá lengra fæðingarorlof þar sem Emil kom í heiminn árið 2020 segir Stefán:

„Við vorum ekkert að spá í það en það er auðvitað fínt,“ segir Stefán, sem telur að einnig hefði verið gott að fá drenginn í heiminn fyrir áramót þar sem þá hefði eingöngu verið eitt skólaár á milli Emils og eldri bróður hans, sem fæddist árið 2018, en fjölskyldan fór inn í fæðinguna með jákvæðum hug til beggja ára.

Stefán og Berglind segjast vilja koma á framfæri þökkum til „alls frábæra starfsfólksins á spítalanum“ sem hefur reynst þeim „ómetanlega vel“ í öllum þeirra barneignum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert