Andlát: Guðrún Ögmundsdóttir

Guðrún Ögmundsdóttir, borgarfulltrúi og fyrrverandi alþingiskona,lést á líknardeild Landspítalans í …
Guðrún Ögmundsdóttir, borgarfulltrúi og fyrrverandi alþingiskona,lést á líknardeild Landspítalans í gær að morgni gamlársdags mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Guðrún Ögmundsdóttir borgarfulltrúi og fyrrverandi alþingiskona lést á líknardeild Landspítalans í gær að morgni gamlársdags, eftir stutta og snarpa baráttu við krabbamein. Guðrún fæddist í Reykjavík 19. október 1950. Guðrún hlaut ótal viðurkenningar fyrir brautryðjandastörf í þágu mannréttinda, m.a. riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 2019 fyrir framlag í þágu mannúðar og jafnréttisbaráttu hinsegin fólks.

Guðrún var fyrst kjörin til setu í borgarstjórn fyrir Kvennalistann árið 1992 og fyrir Reykjavíkurlistann 1994-1998. Hún var kjörin í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Samfylkinguna árið 2017.

Guðrún var kjörin á þing fyrir Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmi árið 1999 og sat á þingi til ársins 2007.

Kjörforeldrar Guðrúnar voru hjónin Ögmundur Jónsson (1918-1971) vélstjóri og bifvélavirki og yfirverkstjóri hjá Vita- og hafnamálastofnun og Jóhanna J. Guðjónsdóttir (1918-1986). Móðir Guðrúnar var Hulda Valdimarsdóttir (1922-1981).

Maki Guðrúnar var dr. Gísli Arnór Víkingsson (fæddur 5. ágúst 1956) cand. scient., sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Foreldrar hans voru hjónin Víkingur H. Arnórsson læknir og prófessor og Stefanía Gísladóttir. Börn þeirra Guðrúnar og Gísla eru dr. Ögmundur Viðar (1977) sviðsstjóri gæðaeftirlits hjá Alvotech og Ingibjörg Helga (1992) starfsmaður Borgarholtsskóla.

Guðrún lauk námi í félagsfræði og félagsráðgjöf frá Roskilde Universitetscenter 1983, framhaldsnámi við sama skóla í fjölmiðlafræði 1983-1985 og cand. comm.-prófi 1985. Guðrún kom víða við á fjölbreyttri starfsævi og lét sig miklu varða brýnustu samfélags- og réttlætismál. Á árinu 2010 var hún ráðin á vegum dómsmálaráðuneytisins sem tengiliður ríkisins og þeirra einstaklinga sem vistaðir höfðu verið á vistheimilum á vegum hins opinbera sem börn og unglingar og sætt þar harðræði.

Út kom á árinu 2010 saga Guðrúnar Ögmundsdóttur, Hjartað ræður för, skráð af Höllu Gunnarsdóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert