Synt í köldum sjó á nýju ári

Sjórinn var um tvær gráður í dag.
Sjórinn var um tvær gráður í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Um 300 manns mættu í hið árlega nýárssund sjóssunds- og sjóbaðsfélags Reykjavíkur í Nauthólsvík í dag. Sífellt fleiri velja að byrja nýtt ár á svellköldu sjósundi. 

„Við bjuggumst ekki við svona mörgum útaf veðrinu, það var svona frekar blautt og ekki alveg eins stillt og gott og það hefur verið, en það mættu um 300 manns. Það var svaka stemning, þetta er algjörlega búið að festa sig í sessi,“ segir Ragnheiður Valgarðsdóttir, sjósundskona. 

„Sjórinn var um tvær gráður svo fólk náði að núllstilla sig fyrir nýtt ár.  Hann var alveg svellkaldur, það var ótrúlegt hvað það voru margir. Við vorum að sjá fullt af nýjum andlitum að koma í sjóinn og ferðamenn líka þannig að þetta er farið að fréttast út.“

Sundgarparnir halda á sér hita innandyra áður en sundið í …
Sundgarparnir halda á sér hita innandyra áður en sundið í ísköldum sjónum hefst. mbl.is/Árni Sæberg

Sú hefð hefur skapast að fólk mætir í búningum í sjósundið og jafnvel þó að hlý föt geri lítið gagn í ísköldum sjónum, segir Ragnheiður búningana vera mikilvægan hluta af sundinu. 

Sjóssunds og sjóbaðsfélag Reykjavíkur á 10 ára afmæli í dag, en það var stofnað 1. janúar 2010. „Þá var þetta bara pínulítill hópur sem mætti saman í sjósund. Sjósundið hefur vaxið alveg ótrúlega mikið á þessum tíu árum. Við ætlum að halda upp á afmælið seinna í janúar, en þetta var líka frábær leið til að fagna 10 ára afmælinu og þessari sprengingu sem hefur orðið,“ segir Ragnheiður.

Allt gert til þess að halda á sér hita.
Allt gert til þess að halda á sér hita. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert