Engin niðurstaða í mál lektorsins í dag

mbl.is ræddi við Björn L. Bergs­son, skrifstofustjóra Landsréttar, fyrr í …
mbl.is ræddi við Björn L. Bergs­son, skrifstofustjóra Landsréttar, fyrr í dag. Þá sagði hann óljóst hvenær niðurstaða myndi liggja fyrir, málið væri til meðferðar hjá dómur­um. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur mun ekki komast að niðurstöðu um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir Kristjáni Gunnari Valdimarssyni í dag. RÚV greinir frá þessu. 

Héraðsdómur Reykjavíkur synjaði kröfu lögreglu um að framlengja gæsluvarðhald yfir Kristjáni Gunnari fyrir áramót. Hann sætti gæslu­v­arðhaldi á grund­velli al­manna- og rann­sókn­ar­hags­muna vegna gruns um að hafa svipt þrjár kon­ur frelsi og beitt þær kyn­ferðis­legu of­beldi. Fjórða kon­an hef­ur enn frem­ur til­kynnt um meint brot Kristjáns gegn henni.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kærði synjun Héraðsdóms Reykjavíkur um framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir Kristjáni Gunnari fyrir áramót. 

Úrskurðurinn ekki birtur opinberlega

Málið barst Landsrétti á gamlársdag og var því úthlutað í dag. Samkvæmt upplýsingum sem RÚV fékk frá Landsrétti mun niðurstaða ekki nást í dag, þrátt fyrir að Landsréttur hafi reynt að flýta afgreiðslu málsins. 

Úrskurður Landréttar verður ekki birtur opinberlega vegna rannsóknarhagsmuna, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mældist til þess að úrskurðurinn yrði ekki gerður opinber. 

Kristján var upphaflega úrskurðaður í fjögurra daga varðhald en lögreglan fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald í framhaldinu. Héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu og var Kristján því látinn laus. 

mbl.is ræddi við Björn L. Bergs­son, skrifstofustjóra Landsréttar, fyrr í dag. Þá sagði hann óljóst hvenær niðurstaða myndi liggja fyrir, málið væri til meðferðar hjá dómur­um.

Niðurstaða verður kunngjörð þegar hún liggur fyrir, að sögn Björns, en hann sagði að unnið væri að því að afgreiða málið eins hratt og hægt er.  

Ekki náðist í lögreglu við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert