Hreyfing grænkera heldur áfram að stækka

Benjamín Sigurgeirsson, formaður Samtaka grænkera, og Valgerður Árnadóttir varaformaður.
Benjamín Sigurgeirsson, formaður Samtaka grænkera, og Valgerður Árnadóttir varaformaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grænkerahreyfingin á Íslandi fer vaxandi, sérstaklega með nýútkominni kvikmynd sem fjallar um neikvæð áhrif kjötneyslu og dýraafurða á mannslíkamann. Þetta segir Valgerður Árnadóttir, varaformaður Samtaka grænkera. 

Þau hjá samtökunum standa nú í ströngu við að koma Veganúar af stað, árlegum viðburði sem miðar að því að fá fleiri til að prófa sig áfram með grænkera (e. vegan) lífsstíl. í kvöld var Veganúar ýtt af stað með fundi í Bíó Paradís.

„Þetta hefur fengið góðar undirtektir enda er fólk mjög meðvitað núna um hvað þetta snýst,“ segir Valgerður. 

Grænkeralífsstíllinn snýst ekki bara um salöt og ávexti. Hér var …
Grænkeralífsstíllinn snýst ekki bara um salöt og ávexti. Hér var til dæmis boðið upp á dýrindisgrillmat. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjötugur og vegan vegna kvikmyndar

Hún segir nokkuð ljóst að þeim sem velja að sleppa öllum dýraafurðum sé að fjölga hérlendis. Í því samhengi nefnir Valgerður sérstaklega kvikmyndina Game Changers

„Eftir að hún kom út bættust mörg hundruð manns sem í Vegan Ísland hópinn á Facebook.“

Glatt var á hjalla á fundinum í kvöld.
Glatt var á hjalla á fundinum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvikmyndin fjallar um íþróttafólk sem hefur hætt að neyta dýraafurða og fengið aukna orku, styrk, kraft og þol vegna þess. Valgerður segir að myndin hafi náð til hóps sem áður hafi varla litið við grænkeralífsstíl, karlmanna á aldrinum 25-40 ára, og jafnvel eldri manna. 

„Ég þekki einn sem er á sjötugsaldri sem sá Game Changers og varð vegan samdægurs.“

Kræsingar smakkaðar.
Kræsingar smakkaðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valgerður samsinnir því að fólk sé farið að velja grænkeralífsstíl af fjölbreyttari ástæðum en áður, nú snúist lífstíllinn ekki einungis um dýravelferð heldur einnig heilsu og umhverfisvernd. 

„Það er aðallega ungt fólk sem tekur upp þennan lífsstíl af umhverfisástæðum. Helsta orsökin er hreyfing Gretu Thunberg, hún kom af stað byltingu í þessum efnum.“

Fjöldi viðburða er á dagskrá Veganúar og er þá að finna á heimasíðunni veganuar.is, ásamt frekari upplýsingum um mánuðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert