Ísland gæti spilað stórt hlutverk

Sigurður Reynir Gíslason rannsóknarprófessor við HÍ.
Sigurður Reynir Gíslason rannsóknarprófessor við HÍ. Ljósmynd/Aðsend

Sig­urður Reyn­ir Gísla­son rann­sókna­pró­fess­or var í gær sæmdur ridd­ara­krossi hinnar íslensku fálkaorðu fyr­ir fram­lag til ís­lenskra jarðvís­inda og kol­efn­is­bind­ing­ar. Sigurður er einn þeirra sem standa á bakvið Carbfix-aðferðina. 

„Mér líður svakalega vel með þetta og ég var djúpt snortinn að fá þessa viðurkenningu. Hún skiptir svo miklu máli fyrir mig út á við, maður fær kannski viðurkenningar innan fagfélaga en þegar þetta fer svona út í allt samfélagið þá snertir þetta mann djúpt. Þetta gladdi mig óskaplega,“ segir Sigurður um þennan heiður sem honum hlotnaðist í gær. 

Sigurður er fæddur í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina. Hann útskrifaðist síðan sem jarðfræðingur frá Háskóla Íslands, lauk doktorsprófi í jarðefnafræði frá John Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum og hefur síðan þá starfað við rannsóknir og kennslu við Háskóla Íslands. 

Nýta sér náttúruleg ferli 

Sigurður er einn af stofnendum kolefnisbindingaraðferðarinnar Carbfix. Aðferðin felst í grófum dráttum í því að koltvíoxíð (CO2) er fangað úr jarðhitagufu, gasið leyst upp í vatni undir þrýstingi og vatninu dælt niður á 500 til 800 metra dýpi í basaltjarðlög þar sem koltvíoxíð binst varanlega í berggrunninum í formi steinda. 

„Við byrjuðum að rannsaka þetta 2006, þá var lagður grunnur að þessu. Það er skemmtilegt við þetta að forsetaembættið hafði svolítið frumkvæði í því máli, að koma þessu á legg og vann mjög náið með okkur fyrsta árið,“ segir Sigurður um upphaf Carbfix. 

„Þetta er bara það sem jörðin er að gera. Við erum að nýta okkur þessi náttúrulegu ferli og fundum leið til þess að herða á þeim, láta þetta virka hraðar. Við náðum svo að steinrenna, sem sagt búa til steina, úr þessu á innan við tveimur árum eftir að við dælum niður í jörðina.“

Handhafar fálkaorðunnar 2019.
Handhafar fálkaorðunnar 2019. mbl.is/Árni Sæberg

Það voru Háskóli Íslands, Orkuveitan, Columbia-háskóli í Bandaríkjunum og Rannsóknarráðið í Toulouse í Frakklandi sem stóðu að stofnun Carbfix-aðferðarinnar.

„Þegar við lögðum af stað í þetta höfðum við tvö markmið. Að þróa iðnaðarferli til að binda koltvíoxíð í bergi og búa til stein úr því, því það er öruggasta leiðin til að binda þetta í þúsundir, ef ekki milljónir, ára. Hitt markmiðið var að þjálfa unga vísindamenn til þess að koma þessari þekkingu hratt til komandi kynslóða,“ segir Sigurður. 

„Nú er ég ekkert unglamb lengur, en að sjá þessa flinku, ungu stúdenta sem byrjuðu með okkur 2007, hlaupa af stað með þetta til þess að dreifa þekkingunni er afar fallegt,“ bætir hann við. 

Unga fólkið stjórnar útrásinni

„Við erum búin að útskrifa 12 doktorsnema úr þessu verkefni, flesta frá Háskóla Íslands. Þetta unga fólk sem byrjaði þarna 2007 sem nemar, er núna að stjórna svolítið útrásinni í þessu,“ segir Sigurður og bætir við að Edda Sif Pind Aradóttir hafi einmitt nýlega verið valin til þess að stýra nýju dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur um Carbfix. 

„Hún var einmitt í fyrsta árganginum af Carbfix-stúdentum sem byrjaði 2007.“

Carbfix-aðferðin hefur nú verið notuð í samfellt fimm ár við Hellisheiðarvirkjun með góðum árangri. Þá stendur til nýta aðferðina við Nesjavelli auk þess sem Landsvirkjun er að skoða Carbfix við Kröflu. 

Sigurður segir að rúmlega 5% af yfirborði meginlandanna sé úr basalti. Sjávarbotn úthafanna sé svo einnig úr basalti og í því felist ýmsir möguleikar. 

„Ef menn vilja gera þetta í sjó eru mörg tækifæri til þess. Það er svona það nýjasta sem við erum að þróa núna og við erum með rannsóknarhópa að vinna í því. Það er næsta skref, að nota sjó í staðinn fyrir ferskvatn sem er víða svo dýrmætt.“

Setur Ísland í nýja stöðu

Sigurður segist mikið hafa rannsakað kolefnishringrás jarðarinnar og umhverfisáhrif eldgosa á ferlinum. Það standi upp úr ásamt þróun Carbfix-aðferðarinnar, sem hann bindur miklar vonir við í framtíðinni. Sigurður segir það auðvitað vera ákjósanlegast að kolefnislosun yrði engin árið 2050, svo það megi uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna. Það sé þó raunsærra að binda þurfi koltvíoxíð úr andrúmsloftinu. 

„Það setur Ísland í alveg nýja stöðu því það mætti hugsa sér að í framtíðinni, á seinni hluta aldarinnar, myndum við reisa jarðhitaorkuver sem yrði gert einungis til þess að knýja „gassugur“ sem sjúga koltvíoxíð beint úr andrúmsloftinu, sem yrði síðan dælt niður í jörðina með Carbfix-aðferðinni.“

Carbfix aðferðin hefur verið notuð á Hellisheiði í fimm ár …
Carbfix aðferðin hefur verið notuð á Hellisheiði í fimm ár með góðum árangri. mbl.is/RAX

„Það sem er svo merkilegt við þetta er að það skiptir ekki máli hvaðan þú sýgur koltvíoxíð úr andrúmsloftinu. Koltvíoxíð sem losnar út í andrúmsloftið í New York í dag getur borist til Íslands eftir þrjá daga. Allt í einu höfum við á Íslandi það undir að geta hjálpað verulega við að binda þetta gífurlega magn sem þarf til þess að ná loftlagsmarkmiðum,“ segir Sigurður. 

„Ísland gæti vel tekið þátt í þessari lofthreinsun í heiminum, ef þjóðir heimsins koma sér saman um að fjármagna það. Í staðinn fyrir að byggja orkuver fyrir Bitcoin myndum við reisa orkuver fyrir gassugur þar sem við myndum svo steinrenna koltvíoxíð,“ segir Sigurður. 

Íslendingar gætu spilað stórt hlutverk 

„Eins og staðan er núna erum við að taka bara það sem losnar frá strompunum, sem er mjög mikilvægt því að um 60% af því sem er losað út í andrúmsloftið kemur úr stórum strompum hjá orkuverum, járnbræðslum og svo framvegis þannig það væri langbest ef bara allir gerðu það,“ segir Sigurður. 

„Það er náttúrulega alveg siðlaust að vera ekki byrjuð á því fyrir löngu því þessi tækni, að fanga koltvíoxíð úr strompum, hefur verið þekkt í talsverðan tíma. Við erum bara allt of sein í það þannig við neyðumst til að fara út í lofthreinsun. Við getum spilað stórt hlutverk þar. Þá erum við ekki að tala um kannski 2-3 milljónir tonna, sem er í raun allt það sem við losum, heldur gæti það orðið 10, eða jafnvel 100 sinnum meira.“

„Við Íslendingar gætum ekki verið einir í þessu, það yrði allur heimurinn. En þetta þýðir að það er hægt að fara á þessi basaltsvæði þar sem við höfum endurnýjanlega orkugjafa, sjúga koltvíoxíð úr loftinu og notað carbfix-aðferðina til þess að steinrenna það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert