Ríkisstjórnin félli ef kosið yrði nú

Ef þingmannafjöldi á landsvísu er reiknaður út frá niðurstöðum Þjóðarpúlsins …
Ef þingmannafjöldi á landsvísu er reiknaður út frá niðurstöðum Þjóðarpúlsins er ljóst að ríkisstjórnin myndi falla. mbl.is/​Hari

Færri styðja ríkisstjórnina en fyrir mánuði, eða 47%. Ef kosið yrði til Alþingis í dag gætu ríkisstjórnarflokkarnir þrír ekki myndað meirihlutastjórn, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sem greint er frá á RÚV

Vinstri græn og Samfylkingin tapa fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn mælist áfram stærstur, með 22,7% fylgi. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð fengi aðeins 10,7% atkvæða ef gengið væri til Alþingiskosninga í dag en flokkurinn fékk 16,9% atkvæða í kosningunum haustið 2017. 

Samfylkingin fengi 13,9% atkvæða, en flokkurinn mældist með um 17% fylgi í haust. Miðflokkurinn bætir við sig fylgi frá síðustu könnum og fær 12,7% fylgi. 

Viðreisn bætir við sig fylgi og fær 12% fylgi og hefur ekki notið meiri stuðnings síðustu 12 mánuði. 

Píratar mælast með 11,3% fylgi og Framsóknarflokkur 8,6%. Flokkur fólksins fengi 4,3% atkvæða og næði ekki inn manni á þing, en miðað er við 5% fylgi. Sósíalistaflokkurinn myndi ekki heldur fá kjörinn þingmann, en flokkurinn mælist með 3,3% stuðning. 

Í síðasta Þjóðarpúlsi naut ríkisstjórnin 50% stuðnings en nú segjast 47% styðja ríkisstjórnina. Samanlagður stuðningur við ríkisstjórnarflokkana þrjá, Sjálfstæðisflokkinn, Vinstri græn og Framsóknarflokkinn, er rúmlega 42%. 

Ef þingmannafjöldi á landsvísu er reiknaður út frá niðurstöðum Þjóðarpúlsins er ljóst að ríkisstjórnin myndi falla. Aðeins sjö þingmenn Vinstri grænna næðu kjöri og sex þingmenn Framsóknar. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 16 menn kjörna. Það gera 29 þingmenn og því vantar minnst þrjá þingmenn upp á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert