Bætur verði greiddar nú í janúar

Frá endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála við Hæstarétt árið 2018.
Frá endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála við Hæstarétt árið 2018. mbl.is/Hari

Miskabætur verða líklega greiddar út vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála síðar í þessum mánuði, á grundvelli nýsamþykktra laga. Alls er um að ræða 759 milljónir króna, samkvæmt frumvarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, en málsaðilar hafa til 10. janúar til að gera athugasemdir við þá bótaupphæð sem kveðið er á um.

Frá þessu er greint á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Fréttablaðið segir frá því að rætt hafi verið við þá sem njóta eiga laganna strax í kjölfar samþykktar þeirra á Alþingi 4. desember síðastliðinn og þeim veittur áðurnefndur frestur til athugasemda, en um er að ræða þá Albert Klahn Skaftason, Guðjón Skarphéðinsson og Kristján Viðar Júlíusson auk fjölskyldna þeirra Tryggva Rúnars Leifssonar og Sævars Marinós Ciesielski.

Í lögunum er kveðið á um að greiðsla bótanna komi ekki í veg fyrir að bótaþegarnir geti sótt frekari bætur fyrir dómstólum, en Guðjón Skarphéðinsson er sá eini sem hefur stefnt ríkinu til greiðslu bóta vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert