Fæstir leita til bráðamóttöku að óþörfu

„Það koma dagar og klukkutímar sem eru mjög erfiðir og …
„Það koma dagar og klukkutímar sem eru mjög erfiðir og veturnir eru það almennt vegna mikillar aðsóknar á bráðamóttöku. Skortur á starfsfólki og útskriftarvandi spila sérstaklega þar inn í,“ segir Jón Hilmar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flestir þeirra sem leita til bráðamóttöku Landspítalans eiga þangað erindi og koma ekki á bráðamóttöku að óþörfu. Þetta segir Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Landspítalans, sem leysir forstjóra spítalans af til 6. janúar. 

Nýlega voru kynntar breytingar á komugjöldum sjúklinga sem leita til heilsugæslu og sagði forstjóri Heilsugæslunnar við það tilefni að breytingin væri mikilvægt skref í að fá fólk til að líta á heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í stað bráðamóttöku. 

„Það eru fáir sem leita á bráðamóttökuna en eiga ekki erindi þangað. Þú getur ekki fækkað þeim sem leita á bráðamóttöku verulega með þessu þó að þetta geti alveg hjálpað,“ segir Jón Hilmar. 

Læknablaðið birti viðtal í dag við yfirlækni hjá Landspítalanum sem telur að stórslys sé í aðsigi á bráðamóttöku vegna inniliggjandi sjúklinga sem hefur fjölgað þrefalt á síðustu tveimur árum.

Vandi heilbrigðiskerfisins endurspeglast í vanda bráðamóttöku

Jón er ekki sammála því að einhvers konar neyðarástand sé á bráðamóttöku. Þó sé staðan þar ekki alltaf til fyrirmyndar og þar sé mikið álag. Það sé gömul saga og ný að staðan sé erfið á bráðamóttöku og sömuleiðis er ástandið ekki séríslenskt, að sögn Jóns. 

„Það koma dagar og klukkutímar sem eru mjög erfiðir og veturnir eru það almennt vegna mikillar aðsóknar á bráðamóttöku. Skortur á starfsfólki og útskriftarvandi spila sérstaklega þar inn í.“

Jón segir að þó að lækkun á komugjaldi á heilsugæslu muni ekki leysa vanda bráðamóttökunnar á einu bretti þá skipti samvinna innan heilbrigðiskerfisins miklu máli. 

„Samvinna heilsugæslunnar og spítalans hefur aukist á síðustu árum og heilsugæslan hefur verið að eflast. Við værum í enn verri málum ef svo væri ekki.“

Jón tekur fram að heilbrigðiskerfið sé keðja og ef vandi sé á einum stað í keðjunni þá tengist það vanda annars staðar. 

„Vandi legudeildanna og vandi heilbrigðiskerfisins endurspeglast í vanda bráðamóttökunnar.“

mbl.is