Landvernd fær 2,5 milljónir frá 66°Norður

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, og Fannar Páll Aðalsteinsson, markaðsstjóri …
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, og Fannar Páll Aðalsteinsson, markaðsstjóri 66°Norður. Ljósmynd/Aðsend

Fataverslunin 66°Norður ákvað að bjóða ekki upp á sérkjör á Svörtum föstudegi í nóvember síðastliðnum og greip frekar til þess ráðs að láta 25% af allri sölu í vefverslun dagana 29. nóvember til fyrsta desember renna til Landverndar. Nýlega var styrkurinn svo veittur Landvernd en hann nemur 2,5 milljónum króna. 

„Sjálfbærni og endurnýting er höfð að leiðarljósi í framleiðslu á vörum 66°Norður. Við vinnum einnig markvisst í því að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á umhverfið,“ er haft eftir Fannari Páli Aðalsteinssyni í fréttatilkynningu

„Við höfum framleitt skjól- og útivistafatnað fyrir veðurfar á norðurslóðum í 90 ár og okkur er umhugað um náttúruna. Við líkt og flestallir Íslendingar erum meðvituð um áhrif hækkandi hitastigs meðal annars á jöklana okkar en þeir hopa um tugi metra á hverju ári. Auk þess að styrkja Landvernd á þessum dögum þá lögðum við áherslu á að koma umhverfisskilaboðum á framfæri til okkar viðskiptavina.“

Mikilvægt að sporna við loftslagsbreytingum

Það hefur fyrirtækið til að mynda gert með því að koma bók ljósmyndarans Ragnars Axelssonar, sem er helst þekktur sem RAX, á framfæri.

„Við vorum með ljósmyndabók RAX á sérstökum kjörum en hann hefur myndað breytinguna sem er að eiga sér stað á íslenskum jöklum til fjölda ára. Okkur finnst mikilvægt að leggja eitthvað af mörkum til að sporna gegn þessari þróun sem ógnar umhverfi okkar,“ segir Fannar.

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir styrkinn kærkominn.

„Landvernd eru stærstu umhverfisverndarsamtök á Íslandi með sitt helsta markmið að standa vörð um náttúru Íslands og stuðla að sjálfbærri þróun heima fyrir og á heimsvísu. Fjárframlag sem þetta kemur sér afar vel fyrir starfsemi samtakanna og verður nýtt til þess að vernda íslenska náttúru og berjast gegn loftslagsbreytingum sem skaða íslenska jökla.“

mbl.is